Skip to main content

Fundað um tækifæri í ferðaþjónustu á Austur- og Norðurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. okt 2023 13:17Uppfært 31. okt 2023 13:18

Austurbrú hefur blásið til sérstakrar vinnustofu ferðaþjónustuaðila á Austur- og Norðurlandi þar sem bera skal saman bækur um hvernig best er að nýta þau tækifæri sem fylgja beinu millilandaflugi til Akureyrar og Egilsstaða.

Fyrr á árinu hætti þýska flugfélagið Condor við beinar reglulega flugferðir frá Evrópu til Akureyrar og Egilsstaða eftir að hafa tilkynnt um slíkar ferðir frá því snemma á síðasta ári. Ástæðan sem gefin var upp var skortur á gistingu en velflestir gististaðir og hótel á þessum svæðum eru fullbókuð langt fram í tímann. Engu að síður ríki bjartsýni að þær áætlanir flugfélagsins verði að veruleika fyrr en síðar og þá þykir vænlegra að ferðaþjónustuaðilar beri saman bækur sínar í þeim efnum.

Að sögn Sigfinns Björnssonar, sem sér um skipulagningu af hálfu Austurbrúar, verður vinnustofan vel sótt af austfirskum ferðaþjónustuaðilum en undanfarin ár hafa kringum 50 aðilar tekið þátt. Þátttaka nú mjög góð og enn geta áhugasamir skráð sig og sín fyrirtæki til leiks næsta sólarhring eða svo.

„Það er mjög góð skráning hjá okkur og ég á von á að fleiri bætist í hópinn áður en yfir lýkur. Það eru auðvitað margir sem hafa áhuga á samvinnu og samstarfi milli þessara landshluta sem er í ýmsu tilliti einn og hinn sami í ferðaþjónustutilliti. Við ætlum að funda saman milli 10 og 15 á fimmtudaginn kemur áður en hópurinn gerir sér svo glaðan dag í Vök og með skemmtidagskrá um kvöldið. Þá veitum við líka hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar þetta kvöld þannig að þetta er stór viðburður fyrir okkur hér.“

Sóknarmöguleikar í austfirskri ferðaþjónustu eru margir og það meðal annars ræðuefnið á sérstakri vinnustofu fyrir ferðaþjónustuaðila á fimmtudaginn kemur. Mynd Austurbrú