Skip to main content

Fýla en engar skemmdir eftir sprengingu í loftþurrkara fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. apr 2025 15:34Uppfært 09. apr 2025 15:41

Eitt og annað fór aflaga í loftþurrkara fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar í Neskaupstað þegar sprenging varð í honum skömmu eftir miðnætti síðustu nótt. Engin slys urðu á fólki og þurrkarinn starfhæfur í kjölfarið þrátt fyrir allt saman.

Það var laust fyrir klukkan tvö síðustu nótt að slökkvilið Fjarðabyggðar fékk tilkynningu um að mikinn kolsvartan reyk úr þaki fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Var allt tiltækt lið sent á vettvang hið snarasta og  var byggingin rýmd tafarlaust eftir að á staðinn var komið. Við eftirlit kom í ljós að sprenging hafði orðið í loftþurrkara en loftræstikerfi hússins réði vel við reyk af þessum sökum og lauk aðgerðum slökkviliðs á staðnum rösklega 40 mínútum eftir komu.

Töluverð fýla varð af þessu sem lagðist yfir hluta bæjarins svo allnokkrir kvörtuðu undan en við athugun starfsmanna Síldarvinnslunnar reyndust skemmdir litlar sem engar og allt starfhæft áfram í kjölfarið.

Sindri Sigurðsson, gæðastjóri Síldarvinnslunnar, segir mest um vert að engin slys hafi orðið á fólki því slíkar sprengingar geti verið æði öflugar.

„Þarna verður yfirhitnun í loftþurrkaranum okkar og við náðum ekki að bregðast nógu hratt við sem varð til þess að það kviknaði í vélinni og þá springur allt inni í þurrkaranum og eldur blossaði upp í kjölfarið. En kerfið er þannig að það er hægt að skrúfa frá vatni inn í þurrkarann og það var gert og allur eldur slokknaði í kjölfarið. Auðvitað var eitt og annað sem gekk úr skorðum í vélasamstæðunni en engar alvarlegar skemmdir og þurrkarinn komst fljótt í keyrslu á ný vandræðalaust. Aðalatriðið er auðvitað að enginn slasaðist því við tilteknar aðstæður getur þetta orðið að púðurtunnu en það tókst að forða því sem betur fer.“

Mynd frá slökkviliði Fjarðabyggðar frá því í nótt en skamman tíma tók að ganga úr skugga um að engin alvarleg hætta væri á ferðum.