Fyrirtaks nýtt tónlistarhús að verða að veruleika í Neskaupstað
Ötulir tónlistaráhugamenn í Neskaupstað hafa unnið hörðum höndum utan hefðbundins vinnutíma síðustu mánuði að því að koma upp góðu tónlistarhúsi fyrir listamenn bæjarins í húsnæðinu sem áður hýsti hina þekktu verslun Tónspil. Efri hæðin tilbúin og vonir standa til að góður tónleikasalur á jarðhæð verði klár með vorinu.
Það er fyrir tilstuðlan tónlistaráhugafólksins í hópnum BRJÁN [Blús, rokk og jazzklúbburinn á Nesi] sem verkið gengur að óskum en þeir fengu húsnæðið til afnota fyrir góðvild SÚN sem keypti húsið skömmu eftir að Tónspil hætti starfsemi. SÚN lagði töluvert fé strax til endurbóta og viðhalds en frá síðasta hausti tóku svo félagar í BRJÁN við keflinu og nú er efri hæðin, ætluð til æfinga og opin öllum tónlistarhneigðum sem áhuga hafa á slíkri aðstöðu, meira og minna klár.
Næsta skref, sem reyndar er hafið, er að taka til hendinni á jarðhæð hússins að sögn Guðmundar Kr. Höskuldssonar, eins nefndarmanns, og hann bjartsýnn á að þar verði hægt að opna lítinn og góðan tónleikasal strax á vormánuðum.
„Við erum bjartsýnir á að það takist og hér verði hægt að halda fyrstu tónleikana við ágætar aðstæður eftir fáeina mánuði. Það hefur vantað lítinn tónleikasal og æfingaaðstöðu hér í Neskaupstað um nokkurra ára skeið. Egilsbúð er auðvitað fínn vettvangur fyrir stærri sveitir og tónleika en í raun ekki sem æfingasvæði eða smærri viðburði sem er hugmyndin að bjóða upp á hér í framtíðinni. Ungmenni hér hafa til dæmis verið að sækja í svona aðstöðu á Eskifjörð og jafnvel Egilsstaði til æfinga svo það munar sannarlega um að hafa svona aðstöðu í bænum.“
Efri hæðin á gamla Tónspilshúsinu orðin spikk og span eins og sumir segja. Jarðhæðin næst á dagskrá. Mynd BRJÁN