Fyrrverandi framkvæmdastjóri vildi 6,5 milljóna bætur en fékk 150 þúsund krónur

Þróunarfélag Austurlands var í dag dæmt til að greiða fyrrverandi framkvæmdastjóra orlof sem hann taldi sig eiga inni hjá félaginu. Í Héraðsdómi Austurlands var samt aðeins fallist á lítinn hluta krafna hans.

 

Stefán Stefánsson sagði upp störfum sem framkvæmdastjóri Þróunarfélags Austurlands í lok október 2009 í kjölfar fréttaumfjöllunar um störf hans á öðrum vettvangi. Strax varð ljóst að ágreiningur væri um starfslok hans.

Stefán krafðist þess að Þróunarfélagið greiddi honum 6,5 milljónir ásamt vöxtum.  Stefán sagðist eiga rétt á fimm mánaða biðlaunarétti, sem hann byggði á ráðningarsamningi frá árinu 2007. Að auki vildi hann fá orlof fyrir sextíu daga og námskeiðskostnað.

Stjórnin vissi ekki af nýjum samningi

Forsvarsmenn Þróunarfélagsins sögðu að samningurinn frá 2007 hefði aðeins verið undirritaður af stjórnarformanni en aldrei borinn upp í stjórn. Stefán var upphaflega ráðinn til félagsins árið 2004 en í upphaflegum ráðningarsamningi var gert ráð fyrir endurskoðun launaliðar á tólf mánaða fresti. Á þessi rök féllst dómurinn.

Engin gögn um orlofsdaga

Engin gögn fundust hjá Þróunarfélaginu um orlofstöku starfsmanna, sem framkvæmdastjórinn bar þó ábyrgð á. Hann lagði fram greinargerð en engin frekari gögn studdu hana.

Samkvæmt samningi átti Stefán að taka 5 orlofsdaga á ári utan hefðbundis orlofstíma. Dómurinn telur vafa á að hann hafi tekið það orlof árið 2009 og því er Þróunarfélagið dæmt til að greiða honum tæpar 150 þúsund krónur með dráttarvöxtum.

Námskeiðskostnaðurinn er aðeins metinn sem heimild innan fjárhagsáætlunar en skuli ekki reiknast sem laun.

Hætti eftir umfjöllun um sölu Malarvinnslunnar

Í dóminum segir að Stefán hafi hætt hjá Þróunarfélaginu eftir að stjórnarmenn þess kölluðu eftir skýringum og upplýsingum um störf hans í þágu annarra aðila, meðal annars vegna aðkomu hans að sölu Malarvinnslunnar árið 2007.

Á stjórnarfundi í september 2009 var fjallað um málið og upplýsti Stefán meðal annars að salan hefði komið inn á borð hans sem framkvæmdastjóra Þróunarfélagsins. Malarvinnslan leitaði til Stefáns sem vann svo að ráðgjöf fyrir fyrirtækið á vegum einkahlutafélags í eigin eigu og hafi þegið greiðslu að fjárhæð 26 milljónir króna.

Hvenær voru hin verkefnin unnin?

Í vörn sinni vísaði Þróunarfélagið til þess að uppsögnin tengdist athugasemdum við störf Stefáns vegna aukastarfa sem hafi skarast við verksvið hans og um trúnaðarskyldur starfsmanna gagnvart vinnuveitanda. Aðkoma Stefáns að ráðgjöfinni og staða hans sem framkvæmdastjóra hafi ekki verið skýrð en þau atriði geti haft áhrif á sanngirnismat.

Þróunarfélagið vísar einnig til að Stefán hafi sinnt öðrum stórum verkefnum, meðal annars fyrir eigið félag, en ekki liggi fyrir hvenær sú vinna hafi farið fram. Þar sem Stefán verið í fullu starfi fyrir Þróunarfélagið á sama tíma hljóti að álykta sem svo að önnur störf hans hafi falið í sér einhverjar fjarvistir frá aðalstarfinu.

Hvor aðili þarf að bera sinn hluta málskostnaðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.