Skip to main content

Fyrsta síldin á land í Neskaupstað og horfur góðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. ágú 2023 15:28Uppfært 24. ágú 2023 16:19

Um liðna helgi kom Barði NK til heimahafnar í Neskaupstað með fyrstu síldina á þessari vertíð en þar um að ræða 560 tonn af norsk-íslenskri síld. Síldin sæmilega stór og menn bjartsýnir á komandi vertíð.

Eins og Austurfrétt hefur greint frá er makrílvertíðin á enda komin og velflest sjávarútvegsfyrirtæki Austurlands annaðhvort búin eða á lokametrum að klára kvótann í þeim stofni. Hjá Síldarvinnslunni er smotterí eftir af kvótanum í makríl en Grétar Örn Sigfinnsson, rekstrarstjóri, segir ekkert víst að menn eltist við það litla sem eftir er af því. Fyrsta síldin er að koma í land á Neskaupstað tveimur vikum fyrr en fyrir ári síðan.

„Við erum ekki alveg búnir með makrílkvótann en ekki víst að við förum að eltast eitthvað við það sem eftir er. Við erum farnir að undirbúa okkur fyrir síldina og fyrsti farmur kom til hafnar um liðna helgi. Það var fínasta síld og í hana náðist hérna rétt út af Héraðsflóanum svo það var ekki mjög langt að fara. Síldin veiðist gjarnan skammt austur af landinu síðustu árin og það virðist raunin áfram.“

Grétar segir horfurnar almennt góðar með síldina. Ekki aðeins hvað veiðina sjálfa varðar heldur og með verð á mörkuðum sem er í góðu meðallagi.

„Við erum bara bjartsýnir á framhaldið og nú förum við að einbeita okkur að síldveiðum. Það ívið styttri sigling á miðin en með makrílinn sem hjálpar til að skipuleggja vinnsluna í landi.“

Mynd sem Helgi Freyr Ólason á Beiti NK tók við síldveiðar á síðustu vertíð. Komandi vertíð lofar góðu.