Skip to main content

Fyrsta skemmtiferðaskip ársins í Seyðisfjarðarhöfn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. apr 2023 12:20Uppfært 03. apr 2023 12:23

Breska skipið Bolette, lagðist að bryggju á Seyðisfirði klukkan átta í morgun. Vetrarríki hefur tekið við farþegum þótt snjórinn sé aðeins brot af því sem hann var fyrir helgi.


„Það eru allir með bros á vör sem ég hef séð og finnst þetta bara ævintýri. Þau hafa heyrt af stöðunni í síðustu viku og ég útskýri hana fyrir þeim sem spyrja.

Það er snjór í fjöllunum en allar götur auðar og því enginn snjór sem háir okkur. Þótt það virðist fullt af snjó þá er hann sennilega þriðjungur af því sem hann var á fimmtudag,“ segir Rúnar Gunnarsson, hafnarvörður.

Um borð í Bolette eru 1017 farþegar og 645 manna áhöfn. Skipið staldrar ekki lengi við því það fer aftur klukkan 13 til Færeyja og þaðan aftur til heimahafnar í Newcastle. Farþegarnir skoða því aðeins Seyðisfjörð en fara ekki í rútuferðir um fjórðunginn eins og gert er þegar staldrað er lengur við.

Rúnar segir ánægjulegt að skipið hafi komist til Seyðisfjarðar. „Við áttum ekkert endilega von á því eftir síðustu daga en nú eru hlutirnir að komast á rétt ról. Það er gott það hafi komið því það sýnir að við getum tekið á móti skipum í apríl.“

Norræna er svo væntanleg í fyrramálið með ferðalanga í rútum sem fara í dagsferðir. Næsta skemmtiferðaskip er ekki væntanlegt fyrr en í maí.

Snjór yfir Seyðisfirði en Boletta í höfn. Mynd úr vefmyndavél Múlaþings.