Fyrsta skóflustungan að nýju fjölbýli fyrir eldri borgara á Egilsstöðum

Um 40 manns komu saman eftir hádegi í dag til að verða vitni að fyrstu skóflustungu að nýju fjölbýli fyrir eldri borgara við Miðvang á Egilsstöðum við hlið Hlymsblokkarinnar svokölluðu. Þó byggingarferlið sé rétt að hefjast eru íbúðirnar nánast allar uppseldar.

Það merkur áfangi út af fyrir sig þegar byggt er fyrir eldri borgara enda víða á Austurlandi verið köll eftir slíkum íbúðum í langan tíma í velflestum kjörnum fjórðungsins. Engu síður merkileg sú staðreynd að það er hópur eldri borgara sem stofnaði sérstakt byggingarfélag til að koma hlutunum af stað. Það félag er Sigurgarður en þar stendur Sigurjón Bjarnason í stafni.

„Þetta er vissulega stór og ánægjulegur dagur. Ferlið hefur verið töluvert hingað til og við til dæmis haldið eina 32 hönnunarfundi til að komast að niðurstöðu um hentugasta útlit og það er almenn ánægja allra sem að koma með niðurstöðuna.“

Nýja blokkin verður hæð lægri en Hlymsblokkin sem einnig er fyrir eldri borgara og ráð er gert fyrir að innangengt verði á milli beggja blokka ef allt gengur eftir. Íbúðir verða frá 60 og upp í 110 fermetra þær stærstu en meðalstærðin kringum 80 fermetra. Þá verða sérstakar gestaíbúðir á hverri hæð fyrir sig ætlaðar vinum eða ættingjum sem vilja koma í lengri heimsóknir.

Hönnunarvinnu er ekki að fullu lokið en Sigurjón gerir sjálfur ráð fyrir að byggingartíminn geti orðið tvö ár eða svo. Þá á Sigurgarður í viðræðum við Múlaþing bæði um einhver afsláttarkjör vegna jarðvinnu en mjög langt er niður á fast á hluta lóðarinnar sem eykur kostnaðinn verulega. Þá standa vonir einnig til þess að Múlaþing vilji hugsanlega kaupa eða leigja hluta jarðhæðar hússins fyrir þjónustu.

Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður byggðaráðs Múlaþings, var ein þeirra sem fylgdist með í dag og lauk hún lofi á verkefnið og að eldri borgarar hafi með þessum hætti tekið sjálfir af skarið. Slíkt væri mjög til eftirbreytni.

„Það er frábært að sjá þetta verða að veruleika hér í dag og ég óska Sigurgarði til hamingju með daginn. Þörfin fyrir slíkar íbúðir er sannarlega til staðar og gleðilegt að byggingin lítur skemmtilega út á teikningum og er á besta hugsanlega stað. Við hjá Múlaþingi styðjum þetta framtak heils hugar og nú eru viðræður okkar á milli um ákveðna hluti sem gætu auðveldað verkið.“

Mynd 1: Við svo merkilegt verkefni þarf auðvitað stóreflis gröfu í fyrstu skóflustunguna en mikið lófatak fylgdi í kjölfarið frá viðstöddum. Mynd AE

Mynd 2: Svona mun nýja blokkin líta út í lokin en framkvæmdatíminn gæti verið allt að tvö ár. Mynd aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.