Fyrsta skref Stöðfirðinga inn í verkefnið Brothættar byggðir
„Það er töluverð nýjung að byrja á svona íbúakönnun en niðurstöðurnar verða svona ákveðinn grunnur að því sem gert verður í framhaldinu,“ segir Alda Marín Kristinsdóttir, hjá Austurbrú.
Segja má að fyrstu skref Stöðfirðinga inn í byggðaverkefnið Brothættar byggðir hafi nú formlega verið tekin því nú leita þeir aðilar sem umsjón hafa með verkefninu til heimamanna sjálfra í rafrænni könnun sem hófst fyrr í vikunni. Þar er leitað álits íbúa á Stöðvarfirði á búsetugæðum í bænum og framtíðarmöguleikum byggðarinnar.
„Könnunin er á netinu fram til 28. febrúar og svo ráðgerum við að halda sérstakt íbúaþing fljótlega í kjölfarið í marsmánuði. Við hvetjum alla Stöðfirðinga til að taka þátt svo við fáum sem allra gleggsta mynd heimamanna áður en hin eiginlega verkefnisvinna hefst,“ segir Alda Marín. „Það er verulega mikilvægt að flestir taki þátt því sjónarmið íbúanna sjálfra skiptir auðvitað sköpum í verkefni sem þessu.“
Allir íbúar Stöðvarfjarðar geta tekið þátt rafrænt en einnig er mögulegt að prenta hana út og skila í lokuðu umslagi í sérstakan skilakassa í verslunni Brekkunni.