Skip to main content

Fyrsti steypti fóðurpramminn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. maí 2022 10:25Uppfært 05. maí 2022 10:57

Fyrsti fóðurpramminn úr steinsteypu, sem notaður er hérlendis við fiskeldi, er kominn til Fáskrúðsfjarðar og verður senn dreginn út að eldiskvíum í firðinum. Hann verður til sýnis um helgina.


Fóðurpramminn, sem hlotið hefur nafnið Sandey, tekur 600 tonn af fóðri í fóðursíló og 100 tonn að auki í geymslulest. Sandey er 20x40 metrar að stærð og getur að auki borið 130 rúmmetra af meltu.

Pramminn kemur frá ScaleAQ og í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að kostur steyptra fóðurpramma sé að þeir séu stöðugir í sjó, hafi mikið ölduþoli og henti því vel við krefjandi íslenskar aðstæður. Ekki þarf heldur að taka prammann reglulega úr sjó til viðhalds, hreinsunar eða málunar sem þýðir að hann hefur langan órofinn starfstíma.

Sandey er að öllu leyti fjarstýrð, bæði hvað varðar eigin stjórn og fóðrun. Pramminn er búinn kerfi til að auka sparneytni sem á að minnka olíunotkun um allt að 60% sem á bæði að draga úr útblæstri og auka ending vélbúnaðar.

Sandey verður til sýnis í höfninni á Fáskrúðsfirði milli klukkan 10 og 14 á laugardag áður en hún verður dregin á sinn stað við kvíar Laxa/Fiskeldis Austfjarða.

Mynd: ScaleAQ