Skip to main content

Fyrstu íbúarnir fluttir inn á Lækjargötu á Seyðisfirði – Myndir

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. jún 2025 14:59Uppfært 18. jún 2025 14:59

Búið er að ráðstafa öllum íbúðum í nýjum íbúðakjarna við Lækjargötu á Seyðisfirði og fyrstu íbúarnir fluttir inn. Léttir er að framkvæmdum sé loks lokið en fyrstu fjárveitingar til verksins voru veittar árið 2020.


Húsið er byggt fyrir leigufélagið Brák, sem er í eigu sveitarfélaga, meðal annars Múlaþings með stuðningi frá ríkinu í gegnum stofnframlög. Fyrstu framlögin bárust árið 2020 en áætlanir gengu ekki eftir þannig að fyrsta skóflustungan var ekki tekin fyrr en árið 2022.

Hrafnshóll var fenginn til verksins en eftir ítrekaðar tafir við bygginguna var samningum rift við Hrafnshól og leitað til Esjuslóðar um að ljúka framkvæmdum. Esjuslóð lauk einnig við fjölbýlishús við Selbrún í Fellabæ sem Hrafnshóll hafði einnig tekið að sér fyrir Brák og Múlaþing. „Það er mjög gott að geta tekið þessar íbúðir í notkun eftir alltof langa bið,“ segir Einar Georgsson, framkvæmdastjóri Brákar.

Átta íbúðir og samkomusalur


Íbúðir í kjarnanum eru ætlaðar fólki, 55 ára og eldra. Þær eru átta talsins, tvær eru 54 fermetrar með tveimur herbergjum, fjórar 79 fermetrar með þremur herbergjum og tvær 94 fermetrar með fjórum herbergjum. Miðrými hússins hefur síðan verið hugsað sem samkomusalur eldri borgara en Múlaþing sér um það.

Íbúðirnar verða í eigu Brákar sem leigir þær út. Búið er að leigja þær allar út. Fyrsti íbúinn flutti inn í byrjun þessa mánaðar og um helgina var flutt inn í tvær íbúðir til viðbótar.

Gatnagerð enn í gangi


Undirbúningur að verkinu fór af stað eftir kannanir sem sýndu eftirspurn eftir íbúðum á Seyðisfirði, einkum fyrir eldra fólk sem vildi minnka við sig. Þörfin jókst svo enn frekar eftir aurskriðurnar í desember 2020. Íbúðirnar eru byggðar þar sem íþróttavöllur staðarins var áður. „Við væntum þess að þessar íbúðir hafi góð áhrif á Seyðisfjörð. Fólk flytur úr öðru húsnæði sem losnar þá um,“ segir Einar.

Framkvæmdum á svæðinu er ekki lokið því gatnagerð stendur enn yfir. Í síðustu viku var unnið við lagnir í götunni. Á næstunni stendur til að malbika götuna. „Við bíðum eftir næstu ferð malbikunarflokks á Seyðisfjörð,“ segir Einar.

Rúmlega 20 íbúðir í byggingu á vegum Brákar


Talsverð umsvif eru á vegum Brákar á Austurlandi um þessar mundir. Félagið stendur að baki íbúðakjarna fyrir fólk með fötlun sem opnaður var á Reyðarfirði fyrir tveimur vikum.

Þá standa yfir framkvæmdir við 21 íbúð í viðbót og er jarðvegsvinna við þær hafin eða langt komin. Flestar, tíu, verða í nýju fjölbýlishúsi við Selbrún í Fellabæ en þess utan verða þrjár íbúðir á Egilsstöðum, Djúpavogi og í Neskaupstað auk tveggja íbúða á Eskifirði. „Það hefur verið mikill vilji hjá sveitarfélögunum fyrir austan að byggja með Brák og það er greinileg þörf því það gengur vel að leigja eignirnar,“ segir Einar.

Sfk Ibudakjarni Laekjargata Juni25 0008 Web
Sfk Ibudakjarni Laekjargata Juni25 0013 Web
Sfk Ibudakjarni Laekjargata Juni25 0018 Web
Sfk Ibudakjarni Laekjargata Juni25 0019 Web
Sfk Ibudakjarni Laekjargata Juni25 0020 Web
Sfk Ibudakjarni Laekjargata Juni25 0023 Web
Sfk Ibudakjarni Laekjargata Juni25 0024 Web
Sfk Ibudakjarni Laekjargata Juni25 0025 Web
Sfk Ibudakjarni Laekjargata Juni25 0026 Web
Sfk Ibudakjarni Laekjargata Juni25 0029 Web
Sfk Ibudakjarni Laekjargata Juni25 0031 Web
Sfk Ibudakjarni Laekjargata Juni25 0034 Web
Sfk Ibudakjarni Laekjargata Juni25 0037 Web