Skip to main content

Fyrstu íslensku makrílskipin komin í Smuguna

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. jún 2025 16:50Uppfært 20. jún 2025 16:52

Fyrstu íslensku makrílskipin eru komin í Smuguna og byrjuð að veiða. Fyrstu makrílfarmarnir gætu því komið að landi fljótlega upp úr helgi.


Það voru skip Brims, Venus frá Vopnafirði, Svanur og Víkingur sem fóru fyrst af stað af þeim íslensku á mánudag, eftir að hafa tekið veiðarfæri í Neskaupstað. Þau leituðu fyrst innan íslensku lögsögunnar en tóku stímið í Smuguna í gær.

„Við fengum mest síld í íslensku lögsögunni, makríllinn er ekki búinn að skilja sig frá henni,“ segir Ingimundur Ingimundarson, útgerðarstjóri uppsjávarskipa Brims.

Fyrst til veiða fóru reyndar Polar Amaroq og Polar Ammassak, skip grænlenskra hlutdeildarfélaga Síldarvinnslunnar, en þau fóru af stað fyrir rúmri viku. Þau eru heldur norðar en skip Brims, ásamt um öðrum tug rússneskra skipa.

Ekki samstarf milli Brims og Eskju í ár


Skip Brims voru nýkomin á svæðið og búin að kasta en ekki byrjuð að hífa þegar Austurfrétt ræddi við Ingimund um klukkan 16. Þau starfa þrjú saman, fylla eitt sem siglir í land með aflann meðan hin halda áfram veiðum og svo koll af kolli. Víkingur fer fyrstu ferðina og er vonast til að hann komi til Vopnafjarðar snemma í næstu viku. Þar er búið að bæta við nýrri flökunarvél til að bæta afköstin.

Brim og Eskja unnu saman að veiðunum í fyrra en ákveðið var að halda því ekki áfram. Eskja gerir í sumar út þrjú skip: Aðalstein Jónsson, Jón Kjartansson og Guðrúnu Þorkelsdóttir en síðastnefnda skipið hafði verið á söluskrá í meira en ár. Guðrún var send í einn leiðangur á kolmunna í apríl og er tilbúin í veiðarnar.

Hún fór af stað frá Eskifirði í morgun og það sama gerði Aðalsteinn Jónsson. Beitir og Börkur, skip Síldarvinnslunnar, fóru frá Norðfirði í hádeginu.

Fyrr af stað en síðustu ár


Skipin fara heldur fyrr til veiða en oft áður. Ingimundur segir það gert þar sem undanfarin ár hafi seinni hluti veiðitímans reynst endasleppur. Þess vegna sé reynandi að byrja fyrr. Hins vegar fer fiskurinn ekki að fitna af alvöru og verða verðmætari fyrr en um mánaðamótin júlí/ágúst.

Heimilt er að veiða 125.000 tonn af makríl í ár. Þar sem talsvert vantaði upp á að allur kvóti síðasta árs væri veiddur fengu íslensku útgerðirnar heimild til að flytja hærra hlutfall aflaheimilda fram á næsta ár en vanalega. Á móti er niðurskurður í makrílafla á heimsvísu. Í heildina eru heimildirnar því svipaðar og í fyrra.

Ingimundur segir horfur á mörkuðum ágætar. Staðan sé góð á frystum afurðum en meiri spurning um mjöl og lýsi. Það komi þó betur í ljós eftir að byrjað verður að selja afurðir.