Fyrstu loðnufarmarnir á land hjá Eskju

Loks færst líf að nýju í uppsjávarvinnslu Eskju á Eskifirði eftir að fyrstu loðnu ársins var þar landað í fyrrakvöld þegar norska skipið Hargrun kom til hafnar með um 1100 tonn úr Barentshafinu. Í morgun kom annar 990 tonna farmur af sömu miðum og þriðja norska skipið er þegar á leiðinni.

Þó langt sé farið eftir loðnu alla leið í Barentshafið, en þaðan er um 950 sjómílna sigling hingað til lands, og þrátt fyrir að verð sé nokkuð hátt á norsku fiskmörkuðunum borgar þetta sig á meðan stærstur hluti loðnunnar fer til manneldis að sögn Hlyns Ársælssonar, rekstrarstjóra uppsjávarfrystihúss Eskju. Ekkert hefur fundist að ráði af loðnu hér við land enn sem komið er þrátt fyrir töluverða leit af hálfu Hafrannsóknarstofnunar.

„Það munar öllu að fá líf í húsið að nýju eftir langt hlé en stærsti hluti loðnunnar fer í frystingu fyrir markaði í Asíu og Austur-Evrópu. Þetta er alveg ágæt loðna þó smá sé en það er góð kæling um borð í þessum skipum og aflinn sem kominn er á land í fínu lagi.“

Hjá Eskju fylgjast menn áfram með fiskmörkuðunum í Noregi meðan ekkert er að finnast hér við land og ekki útilokað að keyptur verði meiri loðnuafli á næstunni. Ferlið í sjálfu sér einfalt að sögn Hlyns því það er sérstaklega tiltekið á uppboðsvefum þar í landi ef skipsstjórnendur hafa áhuga að fara með afla sinn alla leið til Íslands.

Hreyfing í vinnslunni hjá Eskju í fyrsta sinn á þessu ári og loðnulyktin orðin alltumlykjandi. Mynd Eskja

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.