Skip to main content

Fyrstu lundar ársins komið sér fyrir í Hafnarhólma

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. apr 2024 10:25Uppfært 11. apr 2024 10:31

Það greypt almennt í þjóðarsálina að heiðlóan sé hinn sanni vorboði ár hvert en ófáir Austfirðingar telja þó að lundinn sé ekki síðri boðberi betri og hlýrri tíðar. Fyrstu lundarnir komu sér einmitt fyrir í Hafnarhólma á Borgarfirðri eystri um kvöldmatarleytið í gær.

Það staðfestir Dagur Skírnir Óðinsson sem tók meðfylgjandi mynd af fyrstu fuglunum um klukkan 19 í gær. Dagur hafði kannað málið aðeins tveimur klukkustundum fyrr en þá voru engir fuglar sjáanlegir í hólmanum fræga.

Aðspurður segir Dagur að fuglarnir hafi ekki borið þess nein sérstök merki að vera þreyttir heldur þvert á móti nokkuð sprækir miðað við langt ferðalagið í Borgarfjörðinn.

Fuglarnir nú koma um svipað leyti og hin síðustu ár. Frá árinu 2016 hefur sést til fyrstu fuglanna í hólmanum frá 7. apríl til þess 12. þó ekki sé óalgengt að þeirra verði vart á sjónum í firðinum aðeins fyrr.

Eftir því sem næst verður komist hefur lóunnar sjálfrar ekki orðið enn vart austanlands þegar þetta er skrifað.