Fyrsti makríllinn kominn til Vopnafjarðar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. jún 2023 08:39 • Uppfært 28. jún 2023 08:40
Venus NS landaði fyrsta makrílnum sem berst til landsins á þessari vertíð þegar skipið kom til Vopnafjarðar á mánudag. Fleiri íslensk skip eru mætt til veiða í Smugunni.
„Við byrjuðum á Venus klukkan 16.00 á mánudag. Fiskurinn er þokkalegur miðað við árstíma má örugglega segja. Í þessum farmi er hann um 370 grömm af meðaltali af stærð og lítilsháttar áta. Við erum að heilfrysta og flaka.
Það tók nokkra daga fyrir skipin að leita og finna fisk en það er ekki mikill kraftur í veiðunum þannig séð en með tilkomu fleira skipa á miðunum mun þetta vonandi ganga betur,“ segir Magnús Þór Róbertsson, rekstrarstjóri Brims á Vopnafirði.
Venus kom með 1600 tonn. Tvö önnur skip frá Brimi, Svanur og Víkingur, eru að veiðum. Um kvöldmat í gærkvöldi var Víkingur kominn með um 460 tonn. Aðspurður segist Magnús ekki reikna með samfelldri vinnslu á Vopnafirði strax í upphafi vertíðar. Venus fór út aftur klukkan sex í morgun.
Hoffell frá Fáskrúðsfirði og Barði, Beitir og Börkur úr Neskaupstað sigldu öll í Smuguna á sunnudag og voru komin þangað aðfaranótt þriðjudags. Eins og fyrri ár verða skip Síldarvinnslunnar í samstarfi við Vilhelm Þorsteinsson og Margréti frá Samherja á miðunum.