Fyrstu svæðisstjórar UMFÍ á Austurlandi ráðnir
Ungmennafélag Íslands og Íþróttasamband Íslands hafa innleitt verulegar breytingar á starfi sínu með því að setja átta sérstakar svæðisstöðvar upp á ýmsum stöðum í landinu.Tveir svæðisstjórar verða starfandi á öllum þeim stöðvum og nú hefur verið ráðið í þau störf á Austurlandi.
Svæðisstjórarnir nýju austanlands eru þau Jóhann Árni Ólafsson og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir en hvorki fleiri né færri en 200 manns sóttu um þær sextán svæðisstjórastöður sem auglýstar voru. Ráðningarferlið var í samstarfi við tengilið hvers íþróttahéraðs auk þess sem Hagvangur kom líka að málum. Jóhann mun verða staðsettur á Egilsstöðum en Jóhanna á Höfn.
Framundan nú er að tryggja aðgengi svæðisstjóranna að gagnasöfnum og starfsstöð en í ágústmánuði stendur til að funda um þjónustusamninga við hvert hérað og móta aðgerðaáætlun fyrir hvert og eitt svæði.
Bæta þjónustu og auka þátttöku
Með þessari kerfisbreytingu UMFÍ skal gera íþróttahéruðum landsins kleift að takast enn betur og skipulegar á við núverandi og fyrirséð verkefni þeim tengd, bæta þjónustu við iðkendur og auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi. Sérstök áhersla skal lögð á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Fjölga skal tækifærum á landsvísu til að sem flestir geti stundað íþróttir.
Sterkari stuðningur
Með sérstökum svæðisstöðvum þar sem sérstakt starfsfólk er til taks fyrir íþróttafélögin á hverju svæði fyrir sig er UMFÍ í sterkari stöðu til að styðja við hvert og eitt félag sem leiðir af sér betri þjónustu við iðkendur. Mannauðurinn í starfinu nýtist betur til að auðvelda öllu íþróttafólki að stunda þær íþróttir sem hver og einn kýs hvort sem um afreksfólk er að ræða eða fólk sem leggur stund á íþróttir til heilsubótar eða ánægju.
Með nýrri skýrri stefnu standa vonir til að bæta megi aðgengi og upplifun þeirra sem taka vilja þátt í hvers kyns íþróttastarfi í framtíðinni. Mynd úr safni