Gæsluvarðhald fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum við komuna til landsins
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. maí 2022 18:11 • Uppfært 02. maí 2022 18:12
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Austurlands um að erlendur einstaklingur skuli sæta gæsluvarðhald og farbanni fyrir að hafa notað fölsuð skilríki til að komast til Íslands með Norrænu í síðustu viku.
Fram kemur í dóminum að maðurinn hafi framvísað spænskum skilríkjum, sem síðar hafi reynst fölsuð frá grunni, þegar hann fór um borð í ferjuna í Hirtshals í Danmörku. Hann var handtekinn eftir að grunur vaknaði um skilríkjafalsið eftir komuna til Seyðisfjarðar í síðustu viku.
Lögreglustjórinn á Austurlandi fór fram á að manneskjan yrði úrskurðuð í gæsluvarðhald til 25. maí. Í greinargerð lögeglu kemur fram að einstaklingurinn hafi viðurkennt við yfirheyrslu að hafa keypt fölsuð skilríki og notað.
Hann hafi ekki haft nein önnur skilríki meðferðis og því hafi ekki tekist að sannreyna hver hann sé. Fingraför voru tekin af honum og send út til alþjóðlegra lögreglustofnana.
Viðkomandi hefur engin tengsl við Ísland en átti bókaðan miða aftur með Norrænu þann 11. maí. Þess vegna telur lögreglan hættu á að einstaklingurinn reyni að koma sér úr landi og forðast málsmeðferð. Verjandi mannsins sagði manninn hafa verið samvinnuþýðan frá upphafi.
Héraðsdómur féllst á gæsluvarðhald en aðeinst til 5. maí. Landsréttur staðfesti það en bætti við farbanni til 13. maí.
Mynd: Sigurður Aðalsteinsson