Gæsluvarðhald í Norðfjarðarmáli framlengt um viku
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. ágú 2024 11:04 • Uppfært 30. ágú 2024 11:06
Dómari hefur fallist á kröfu lögreglustjórans á Austurlandi um að einstaklingur, grunaður um að vera valdur að andláti hjóna í Neskaupstað fyrir rúmri viku, verði áfram í gæsluvarðhaldi og einangrun fram til 6. september.
Hjón á áttræðisaldri fundust látin í heimahúsi í Neskaupstað í hádeginu á fimmtudaginn fyrir viku. Í kjölfarið var lýst eftir þeim sem er í haldi og var hann handtekinn í Reykjavík skömmu síðar. Síðasta föstudag var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald og einangrun í viku. Það hefur nú verið framlengt.
Lögreglan veitir ekki nánari upplýsingar um málsatvik eða stöðu rannsóknar að svo stöddu. Í tilkynningu frá í gær segir að rannsóknni miði vel en áfram sé unnið að gagnaöflun og úrvinnslu, svo sem af vettvangi og rafrænum gögnum. Það taki tíma.
Þar kom einnig fram á að dómstólar hefðu fallist á kröfu lögreglustjórans um að sá grunaði gangist undir geðrannsókn. Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að hann hafi um árabil glímt við mikil andleg veikindi.