Skip to main content

Gætu raftengt skip í land á Seyðisfirði strax næsta sumar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. jún 2023 10:29Uppfært 01. jún 2023 10:41

Tafir hafa orðið á því að setja upp nauðsynlegan búnað til að raftengja skip sem að leggjast í Seyðisfirði beint í land í stað þess að brenna eldsneyti um borð meðan áð er. Það helgast af því að menn vilja gjarnan tengja fleiri skip en aðeins Norrænu.

Unnið hefur verið að þessu um eins árs skeið enda minnkar það alla mengun skipa til muna að þurfa ekki að keyra vélar sínar meðan legið er að bryggju. Sérstaklega er það mikilvægt í jafn þröngum firði og á Seyðisfirði þar sem efni safnast gjarnan fyrir í logni eða hægum vindi.

Rúnar Gunnarsson, hafnarvörður, segir að tekin hafi verið sú ákvörðun þegar málið var komið á skrið að reyna að fjölga þeim skipum sem nýtt gætu sér raftengingu og þess vegna sé dálítil pattstaða nú.

„Í upphafi var fyrst og fremst verið að horfa til þess að tengja Norrænu en nú erum við að leita leiða til að tengja jafnframt minni skemmtiferðaskip. Það getur verið munur á spennu sem til þarf fyrir hvert skip og nú skoðum við þurfi til að bæta því við. Sjálfur myndi ég ætla að við getum vonandi boðið raftengingu í mörg skipanna strax næsta sumarið.“

Fleiri framkvæmdir

Sú framkvæmd fjarri því það eina sem unnið hefur verið að á hafnarsvæðinu. Búið er að ljúka við sjóvörn við Sæból og þá er að mestu lokið við að endurbyggja hina þekktu Angró-bryggju sem fór illa í skriðuföllunum í desember 2020.

„Sjóvörnin við Sæból er tilbúin og tókst afskaplega vel til þar. Þá erum við enn að vinna að endurbyggingu Angró-bryggjunnar sem er langt komin. Veður tafði það verk reyndar um sex til átta vikur hér í vetur en nú horfum við fram á að því verði lokið fyrstu vikuna í júlí eða svo. Hún verður svo nýtt fyrir smærri skemmtiferðaskipin og skútur í framtíðinni.“

Óvíða betri höfn til að leita vars

Eins og flestum er kunnugt sækir metfjöldi skemmtiferðaskipa Seyðisfjörð heim þetta sumarið eða alls 115 skipakomur. Þrátt fyrir þennan mikla fjölda hefur einnig tekist að koma til móts við stór skemmtiferðaskip sem einhverra hluta vegna þurfa var með litlum fyrirvara.

„Það gerðist hér fyrir tveimur vikum eða svo að stórt skemmtiferðaskip óskaði eftir vari vegna veðurs með aðeins sólarhrings fyrirvara og við náðum að bjarga því þó tíminn væri skammur. Reyndar voru tvö önnur skemmtiferðaskip sem óskuðu þess sama um svipað leyti. Eitt sem fékk á sig brot á leiðinni og annað sem flýði veðurofsa á Akureyri. Við gátum einnig komið til móts við þau þó dagskráin hér sé æði þétt í skipakomum.“

Mikið sem eftir verður í bænum

Nokkuð hefur verið fjallað um hve lítið ferðamenn á skemmtiferðaskipum skilja eftir sig í nokkurra klukkustunda stoppi eins og raunin er með þau flest. Rúnar gefur lítið fyrir það og tekur dæmi af Sky Princess sem var eitt skipanna sem sótti í var í bænum fyrir skömmu.

„Við tókum á móti því með 3500 farþega og 1400 í áhöfn með minna en sólarhrings fyrirvara. Þá voru auðvitað engar skipulagðar rútuferðir frá skipinu þar sem fyrirvarinn var skammur þannig að allt fólkið var bara hér í bænum. Þann tíma voru allar verslanir meira og minna fullar og sem dæmi þá seldi handverksmarkaðurinn hér nánast fyrir eina milljón króna á skömmum tíma. Svo er auðvitað hafnarsjóður að fá tugmilljónir í tekjur svo þessi mýta með að ekkert verði eftir er ekki rétt.“