Gáfu búnað í herbergi fyrir fólk í líknandi meðferð
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. jún 2023 12:04 • Uppfært 30. jún 2023 09:36
Aðstandendur Önnu Gunnlaugsdóttur í samvinnu við Hollvinasamtök heilbrigðisþjónustu á Fljótsdalshéraði (HHF) afhentu Heilbrigðisstofnun Austurlands í húsnæði hjúkrunarheimilisins Dyngju á mánudag aðstöðu til líknarþjónustu þar.
Gjöfin er gefin til minningar um Önnu Gunnlaugsdóttur að hennar ósk og kostuð af minningargjöfum um hana sem bárust HHF. Anna lést fyrir rúmu ári. Á Dyngju hafa nú verið innréttuð tvö rými sem sérstaklega eru ætluð fólki í líknandi meðferð og aðstandendum þess.
„Stofurnar breyta því að þegar fólk kemur inn til okkar til að deyja eða þiggja líknandi þjónustu þá eru öll húsgögn til staðar. Á hjúkrunarheimilum er sjúkrarúm og náttborð til staðar en fólk kemur með sín húsgögn.
Í þessum stofum eru öll húsgögn til staðar þannig umhverfið er notalegt og hlýlegt til að fólkinu líði vel,“ segir Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSA.
Á Dyngju eru alls 36 rými, 32 hjúkrunarrými og 4 sjúkrarými. Sjúkrarýmin eru ekki alltaf fullnýtt heldur nýtt í tilfallandi atvikum, svo sem ef fólk þarf að koma í hvíldarinnlögn. Tvö þeirra hafa nú verið innréttuð fyrir líknandi meðferð en geta áfram nýst í hvíldarinnlagnir.
Uppbygging rýmanna fellur að frekari uppbyggingu líknandi þjónustu á Austurlandi. Hún er í takti við aðgerðaáætlun stjórnvalda um líknarþjónustu 2021-25. Til þessa hefur sú þjónusta mest verið í boði á Akureyri, Reykjavík eða umdæmissjúkrahúsinu.
Hjá HSA hafa verið ráðnir tveir verkefnastjórar til að aðstoða bæði fólk í líknandi með ferð og aðstandendur en þar er einnig verið að byggja upp þekkingu starfsfólks á svæðinu í heilsugæslu og á hjúkrunarheimilunum á Fáskrúðsfirði, Seyðisfirði og Egilsstöðum.
Agnar Eiríksson, eftirlifandi eiginmaður Önnu, Guðjón Hauksson, forstjóri HSA og Auður Anna Ingólfsdóttir, formaður HHF.