Skip to main content

Gagnrýna að seinni áfanga jarðganga á Austurlandi sé frestað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. júl 2023 11:53Uppfært 27. júl 2023 11:57

Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi gagnrýni í umsögn inni um drög að samgönguáætlun að búið sé að seinka seinni hluta hringtengingar Austurlands með jarðgöngum. Sambandið gagnrýnir einnig að ekki séu neinar nýframkvæmdir á áætlun fyrr en árið 2027.


Samkvæmt núgildandi samgönguáætlun eru Fjarðarheiðargöng næstu jarðgöng á Íslandi og í framhaldi af þeim yrði farið beint í að bora áfram milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar um Mjóafjörð.

Fjarðarheiðargöngin eru enn fremst í nýju áætluninni en hin eru komin í sjötta sætið og í framkvæmd í kringum árið 2040. Innviðaráðherra hefur rökstutt þessa breytingu með því að við gerð samgönguáætlunar hafi ekki legið fyrir athuganir á öðrum jarðgangakostum en það hafi breyst.

Þessar breytingu mótmælir SSA og bendir á að í svæðisskipulagi Austurlands, sem allar sveitarstjórnirnar fjórar í fjórðungnum hafi samþykkt, sé gert ráð fyrir hringtenginguna til að tryggja bæði öryggi vegfarenda og uppbyggingu atvinnu og samfélags.

Þá lýsir SSA því yfir að göng undir Hellisheiði ættu að vera framar í forgangsröðuninni til að tengja Vopnafjörð betur við aðra byggðarkjarna á svæðinu. Vegna vetrareinangrunar eigi Vopnfirðingar erfitt með að líta á sig sem hluta af atvinnusvæðinu á Austurlandi. Þau göng eru meðal fjögurra kosta sem lagt er til að skoðaðir verði nánar en tíu öðrum kostum er forgangsraðað strax.

Nýframkvæmdir


Í umsögn SSA er því mótmælt að ekki sé fyrirhugaðar neinar nýframkvæmdir í vegamálum fyrr en árið 2027. Þá loks standi til að byrja á Suðurfjarðarvegi með framkvæmdum í botni Reyðarfjarðar, breyta veginum við Teigarhorn og byrja á heilsársvegi yfir Öxi.

SSA bendir sérstaklega á brúna yfir Sléttuá í Reyðarfirði. Hún er einbreið og yfir hana mikil umferð sem skapi slysahættu. Þá séu á henni þungatakmarkanir þannig að ekki sé hægt að fara yfir hana á þungum vinnutækjum. Slíkt hafi valdið bæði töfum og óhagræði á á vinnu á svæðinu.

Fleiri brýr eru flöskuhálsar í vegakerfinu á Austurlandi eins og brúin yfir Sléttuá. SSA vekur líka máls á einbreiðum brúm í botni Fáskrúðsfjarðar og Lagarfljótsbrúnni, sem er ekki á dagskrá fyrr en 2034-8. Sú brú ber heldur ekki þungaflutninga.

„SSA þykir óásættanlegt að Axarvegi sé enn og aftur frestað í samgönguáætlun,“ segir orðrétt í umsögninni og vakin athygli á að vegur yfir Öxi skipti máli til að sameining Múlaþings gangi sem best. Sá fyrirvari hefur verið á þeirri framkvæmd að hún gæti hafist fyrr ef hægt verði að fjármagna hana á annan hátt en beint úr ríkissjóði.

Uppbygging fjölfarinna malarvega


Þá telur SSA miður að ekki standi til að fara í veginn inn að Stuðlagili fyrr en 2029-33. „Hér er á ferðinni einn vinsælasti ferðamannastaður landsins og þarna er í dag lélegur einbreiður malavegur. Miðað við umferðina sem er á svæðinu er ljóst að mikilla úrbóta er þörf til að bæta aðgengi,“ segir í umsögn SSA.

Því er fagnað að til standi að byggja upp hálendisvegi sem vinsælir séu meðal ferðafólks. Bent er á slíka vegi eystra sem sárlega þarfnist viðhalds og uppbyggingar, svo sem þann sem liggur frá Kárahnjúkastíflu og í áttina að Jökuldal sem gæti skapað möguleika á hringleið, úr Stuðlagili, yfir stífluna og yfir Fljótsdal. Þá er einnig komið inn á að byggja upp gamla malarvegi sem leiði ferðafólk að Óbyggðasetrinu og Strútsfossi í Fljótsdal.

Einnig er vakin athygli á að bæði á Hringveginum og öðrum fjölförnum leiðum séu eyður í farsímasambandi.

Egilsstaðaflugvöllur og hafnir


Um flugvöllinn á Egilsstöðum segir SSA að mikilvægt sé að hefja framkvæmdir við akbraut og flughlað þar mun fyrr en ráðgert er í drögunum. Þungi þeirra framkvæmda er á öðru tímabili, 2029-33. SSA vekur athygli á að Egilsstaðaflugvöllur sé mikilvægur varaflugvöllur, ekki síst í ljósi eldgosa í nágrenni alþjóðaflugvallarins í Keflavík. Þess utan sé mikilvægt að byggja upp aðra alþjóðaflugvelli til að tryggja dreifingu ferðafólks.

SSA fagnar því að samþykkt hafi verið sérstakt gjald á flugfarþega til að byggja upp varaflugvellina auk þess sem áfram þurfi að þróa Loftbrú, kerfi til niðurgreiðslna á flugfargjöldum fyrir þá íbúa sem búa fjærst Reykjavík. Hvað aðrar almenningssamgöngur varðar segir að þær þurfi að efla í heild í landshlutanum og hafa leiðarkerfið skýrt og aðgengilegt, fyrir bæði heimafólk og gesti.

SSA fagnar því að á næsta ári sé fyrirhugað að lengja löndunarbryggju á Vopnafirði, endurbyggja Angrobryggjuna á Seyðisfirði og fara í framkvæmdir við höfnina á Borgarfirði. Vakin er athygli á að framundan í austfirskum höfnum séu miklar framkvæmdir við orkuskipti og landteningar skipa. Þess vegna hefði verið gott að samgönguáætlun hefði falið sér einhverja áætlun um stuðning við slíkt.

Mynd: Vegagerðin