Gagnrýna gloppótt GSM samband víða á Austurlandi
Þrátt fyrir að Austfirðingar hafi kvartað undan slæmu GSM-sambandi víða í fjórðungnum um áratugaskeið gengur hægt að ráða bót á því vandamáli.
Þeir staðir þar sem fjarskiptasamband er slitrótt eða þaðan af verra skipta tugum á Austurlandi og sumir þeirra hreint og beint á þjóðvegi 1 eins og raunin er á köflum í Hvalnes- og Þvottárskriðum, Hamarsfirði og Jökuldal. Á Fagradal er ekki óþekkt að sambandið geti verið slitrótt og á Axarvegi eru dauðir punktar fjölmargir. Þá er það og gloppótt á sumum bæjum bæði í Fljótsdal og á Úthéraði og kvartað hefur verið yfir takmörkuðu GSM-sambandi við helsta ferðamannastað Austurlands við Stuðlagil. Sömuleiðis eru miklar gloppur á Mývatns- og Möðrudalsöræfum.
Takmarkað GSM-samband var einmitt eitt af helstu atriðum sem fram komu á íbúafundi sem heimastjórn Fljótsdalshéraðs hélt í Brúarásskóla í aprílmánuði. Þar gagnrýndi heimafólk miður gott samband víða á svæðinu og tekið dæmi um lítið sem ekkert samband á gistihúsinu á Skjöldólfsstöðum sem stendur við þjóðveginn í Jökuldal. Það væri takmarkað í matsal hússins og nánast ekkert í gistiálmu bakatil.
Á fundinum kom einnig fram gagnrýni á að á sumum stöðum skipti beinlínis máli hvaða símafyrirtæki skipt væri við hvort gott farsímasamband næðist. Það ætti til dæmis við um sendi sem staðsettur er við bæinn Merki í Efri-Jökuldal þar sem aðilar hjá öðrum en Símanum næðu illa tengingu. Slíkt skipti máli almennt en sérstaklega á þessum slóðum af öryggisástæðum vegna Kárahnjúkavirkjunar.
Fyrir sitt leyti beindi heimastjórn Fljótsdalshéraðs því til byggðaráðs Múlaþings í kjölfar fundarins að vinna að úrbótum og þar leita samstarfs við aðila eins og símafyrirtækin, Landsvirkjun og Neyðarlínuna. Heimastjórn Djúpavogs ályktaði hið sama nýverið og var þar að ítreka sams konar ályktun frá sama tíma í fyrra.
Árið 2007 áætlaði Háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytið að í lok þess árs yrði komið á gott GSM samband við allan hringveginn. Síðan eru liðin sextán ár. Mynd Stjórnarráð Íslands