Skip to main content

Gagnrýna þjónustuskerðingu Eimskipa harðlega

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. apr 2022 13:52Uppfært 06. apr 2022 13:54

„Hér hefur ekki verið meira að gera í tíu til fimmtán ár og það skýtur mjög skökku við að draga úr þjónustu á slíkum tímapunkti,“ segir Eiður Ragnarsson, starfsmaður heimastjórnar Djúpavogs.

Þó ekki hafi það verið staðfest formlega hyggst Eimskip skerða þjónustu sína á staðnum á næstunni og starfsfólki sagt að búa sig undir 50 prósent starfshlutfall með tilheyrandi vandkvæðum fyrir þau mörgu fyrirtæki á svæðinu sem þjónustuna nýta.

Að sögn Eiðs snýst málið um meira en aðeins störf á svæðinu. Uppgangur hafi verið í bænum og framundan séu töluvert meiri umsvif en verið hefur lengi. Við slíkar aðstæður eigi stórfyrirtæki að sjá sóma sinn í að styrkja þjónustu og viðveru sína á staðnum í stað þess að draga úr.

Heimastjórn Djúpavogs taldi ástæðu til að gagnrýna þetta harðlega í nýlegri bókun.  Búið sé að flytja um fimm þúsund tonn af afurðum frá Djúpavogi fyrstu þrjá mánuði ársins og hlutdeild Eimskip í þeim flutningum sé drjúgur. Hvetur heimastjórnin forsvarsmenn til að endurskoða þetta og bæta frekar í þjónustuna en hitt.

Austurfrétt leitaði viðbragða hjá Eimskip vegna málsins en án árangurs.

Mynd: Töluverð umsvif á Djúpavogi nú þegar og mikið meira framundan en þá skerðir Eimskip þjónustu sína. Mynd Múlaþing