Skip to main content

„Galið að leiðinni sé ekki haldið opinni“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. feb 2022 15:26Uppfært 03. feb 2022 15:32

Um er að ræða leið innan sveitarfélags þar sem íbúar þurfa að sækja þjónustu og verslun á milli íbúðakjarna. Íbúum á Djúpavogi er gert að aka um annað sveitarfélag og lengja ferðina um tugi kílómetra. Þetta er öryggismál. Þetta er jafnréttismál. Þetta er óboðlegt, frú forseti, og ljóst er að bregðast verður við því strax.

Svo mælti Jódís Skúladóttir, þingmaður VG í Norðausturkjördæmi, á Alþingi í gær þar sem hún fagnaði þeim fréttum að fyrirhugað útboð á nýjum vegi yfir Öxi væri í farvatninu en sérstakur kynningarfundur vegna þess verður haldinn í streymi í fyrramálið eins og Austurfrétt hefur greint frá.

Þingmaðurinn lét þó einnig í sér heyra fyrir hversu langan tíma það hefði tekið að komast á þetta stig þrátt fyrir margítrekaðar áskoranir sveitarstjórna og íbúa nánast um áratugaskeið.

Annað og verra mál er svo að á þeim langa tíma sem tekið hefur að koma útboðinu af stað og þeim langa tíma sem mun taka að klára verkið sjálft hefur vetrarþjónustu ekki verið sinnt sem skyldi. Axarvegur fellur undir svokallaða G-reglu sem felur í sér, með leyfi forseta, að heimilt sé að moka tvo daga í viku haust og vor á meðan snjólétt er. Ástandið er skilgreint snjólétt þegar um er að ræða lítið snjómagn og færðarástand telst hvergi ófært, þungfært eða þæfingur á viðkomandi leið og þegar þjónustuaðgerðin felst eingöngu í hreinsun akbrautar með snjómokstursbíl. Drónaflug og ferðir bænda í fjárleitum hafa margoft sýnt fram á að augljóst er að oft og tíðum er galið að leiðinni sé ekki haldið opinni.