Gámaeigendur ósáttir við „hringlandahátt“ Fjarðabyggðar

Ekki verður lengur boðið upp á sérstakt gámasvæði á Reyðarfirði heldur þurfa gámaeigendur þar í bæ að koma þeim eftirleiðis fyrir við Símonartún á Eskifirði samkvæmt ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar.

Þessi ákvörðun nefndarinnar frá því í ágúst hefur farið fyrir brjóst margra gámaeigenda á Reyðafirði en sextán þeirra skrifuðu nýverið undir bréf til bæjarstjórnar þar sem kvartað var undan enn einum breytingum vegna gámasvæðis. Þar óskuðu þeir eftir að að þessi síðasta ákvörðun yrði endurskoðuð. Þrívegis áður hefur sérstakt gámasvæði á Reyðarfirði verið flutt milli svæða innan bæjarins.

Umhverfis- og skipulagsnefnd tók erindið fyrir á fundi sínum í vikunni þar sem það er sagt miður að ekki hafi tekist að finna framtíðar gámasvæði á Reyðarfirði. Það helgist af fyrirhugaðri atvinnuuppbyggingu í bænum og þar engin heppileg lóð til geymslu gáma til langframa. Þá áréttir nefndin að bygging sérstaks gámasvæðis heyri ekki undir lögboðna þjónustu sveitarfélaga.

Iðnaðarlóðir sveitarfélagsins eru mjög verðmætar hvort sem er á Hjallaleiru eða við Mjóeyrarhöfn og er því ekki hægt að taka þær til framtíðar. Með því að færa svæðið á Símonartún er verið að nota lóð í eigu sveitarfélagsins sem ekki verður notuð undir aðra starfsemi en skilgreind er sem iðnaðar- og geymslusvæði. Á svæðinu er gott aðgengi, rafmagn og lítil umferð stórra tækja eins og oft er á iðnaðarsvæðum.

Símonartún utan við þéttbýlið á Eskifirði verður framtíðarstaðsetning gámasvæðis fyrir Eski- og Reyðarfjörð. Skjáskot GoogleStreetView

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.