Gamalt bæjarstæði finnst við Þingmúla
Fornleifafræðingar telja að gamalt bæjarstæði sé að koma í ljós við bæinn Þingmúla í Skriðdal. Minjarnar komu í ljós þegar gamalt steypt íbúðarhús við bæinn var rifið. Fornminjarnar kunna að vera allt frá miðöldum.
„Um er að ræða veggjahleðslur og gólflög sem sjást í sniðum og eru frá hinum ýmsu tímum, allt frá fyrri miðöldum til 20. aldar. Greinilega gamla bæjarstæðið sem hefur þá verið þarna á svipuðum stað og nú,“ sagði Inga Sóley Kristjönudóttir, minjavörður Austurlands, í samtali við Agl.is.
Hún segir greinileg ummerki að nokkrum sinnum hafi bænum verið breytt. Slíkt sé eðli bæjarstæða. Yfir tíu gólflög fundust. Erfitt hafi verið að átta sig á minjunum.
„ Bæjarstæði eru oftast mjög flókin og fornleifarnar sem þarna sáust báru þess merki að þarna hefði verið búið lengi og veggjum ýtt um koll og húsa- eða herbergisskipan oft breytt.“
Hún segir meiri tíma þurfa til að fara yfir þau gögn sem fornleifafræðingarnir söfnuðu.
„Norðvesturhorn grunnsins reyndist vera í jaðri bæjarstæðis og hallaði land þar töluvert niður. Þar var mikið af torfblandaðri mold, að öllum líkindum útmokstur úr húsum og fallnir veggir. Yfir því lágu gjóskulög frá 1477 og 1362.
Í botni grunnsins í suðvesturhorni var hægt að greina grjóthleðslu úr vegg og lá torfveggur þvert á. Þá sáust í sniði gólflög sem gætu tilheyrt þessari byggingu.“
Ákveðin svæði hafa raskast vegna seinni tíma framkvæmda en líklegt sé að dýpra í jörðu sé óröskuð jarðlög.
„Minjar í botni grunnsins og vestur- og norðursnið voru töluvert röskuð vegna nútíma röralagna sem legið höfðu yfir hlaðið. Niðurgröftur vegna röranna virtist þó ekki ná miklu neðar en núverandi botn grunnsins og mætti því búast við óröskuðum minjum undir þeim en töluvert er enn eftir niður á óhreyft.
Greinilegt var að stærsti hluti minjanna voru í suðurhluta grunnsins og var hann einnig minnst raskaður vegna nútíma framkvæmda. Má búast við að veggir þeir og gólflög sem sjást í suðursniði liggi áfram í suður undir bílaplan sem þar er við Þingmúlakirkju.“