Gamla ríkið fært úr stað
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. júl 2025 15:45 • Uppfært 15. júl 2025 15:46
Hafnargata 11 á Seyðisfirði, betur þekkt sem Gamla ríkið, var í gær lyft af þeim grunni sem húsið hefur staðið á og komið fyrir á öðrum til bráðabirgða. Nýir eigendur vonast til að ljúka við ytra byrði hússins í haust.
„Þetta gekk mjög vel enda flutningurinn undirbúinn síðustu þrjár vikur,“ segir Jón Egill Sveinsson, verkefnisstjóri.
Húsið, sem vegur um 35 tonn, var í gær híft upp með krana af gamla grunninum og komið fyrir til bráðabirgða niður undir smábátahöfninni.
Næst verða lagnir endurnýjaðar í kringum húsið áður en það verður híft á nýjan grunn. Sá verður um 5 metrum nær sjónum og fimm metrum utar en sá sem húsið hefur staðið á síðan það var byggt árið 1918.
Jón Egill segir að nýi kjallarinn verði steyptur þegar lagnavinnunni ljúki. Þá verði húsið fært ofan á hann. Síðan sé stefnt á að klæða það og loka fyrir veturinn.
Innréttingarnar settar í geymslu
Úlfsstaðir ehf. eignuðust húsið í byrjun árs að undangengnu útboði á vegum Múlaþings. Það var upphaflega byggt sem verslunarhús árið 1918 en komst í opinbera eigu árið 1959 þegar Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hóf þar rekstur. Sá stóð til ársins 2004. Síðan hefur ekki verið föst starfsemi í húsinu og það nokkuð látið á sjá. Árið 2020 tók Seyðisfjarðarkaupstaður við húsinu af ríkinu sem lét 100 milljónir fylgja til endurbóta. Það fjármagn fylgdi áfram í vetur.
Innréttingar hússins eru friðaðar, en þær komu úr verslun frá Mjóafirði. Minjavernd hefur verið með í ráðum um varðveislu þeirra frá árinu 2007 þegar hópur Seyðfirðinga hindraði það þegar ÁTVR ætlaði að taka þær niður og flytja í burtu.
Innréttingarnar voru teknar úr húsinu fyrir flutningana og komið fyrir í geymslu. Ekki er unnið eftir neinum öðrum áformum en að þær fari aftur inn í húsið þegar það verður hægt. Samkvæmt samningi hafa Úlfsstaðir þrjú ár til að ljúka við endurgerðina.
Jón Egill segir húsið almennt í ágætu ásigkomulagi, fyrir utan norðausturgaflinn sem er orðinn ansi veðurbarinn. Þá þarf að styrkja burðarvirki hússins.
Mynd: Úlfsstaðir ehf./Jafet Sigfinnsson