Gangur aftur á byggingu íbúða í Fellabæ og Seyðisfirði eftir riftingu við Hrafnshól

Gangur er aftur kominn á byggingu fjölbýlishúsa í Fellabæ og á Seyðisfirði eftir að íbúðafélagið Brák hses. rifti fyrr í sumar samningum við byggingafélagið Hrafnshól eftir miklar tafir á afhendingu íbúðanna.

Þetta staðfestir Elmar Erlendsson, framkvæmdastjóri Brákar hses. í samtali við Austurfrétt en það er húsnæðissjálfseignarstofnun 31 sveitarfélaganna í landinu sem ætlað er að ná fram stærðarhagkvæmni í íbúðauppbyggingu án hagnaðarsjónarmiða svo tekjulágar fjölskyldur hafi aðgang að íbúðum til lengri tíma.

Ástæða riftunarinnar var að fyrirtækið Hrafnshóll, sem ráðið var til að byggja annars vegar 10 íbúða fjölbýlishús í Fellabæ og hins vegar 8 íbúðir fyrir eldri borgara á Seyðisfirði, var langt á eftir áætlunum en rúmt ár er síðan afhending fullbúinna íbúðanna átti að eiga sér stað.

Íbúðir afhentar á næstu tveimur til þremur mánuðum

Elmar segir afar sorglegt hafa verið að horfa upp á hálfkláraðar íbúðir um langt skeið og á sama tíma hafa vart undan að svara fyrirspurnum frá fólki sem sárvantar íbúðir á svæðunum.

„,Það er formlega búið að rifta og ganga úr samningunum við Hrafnshól vegna þessara verkefna fyrir austan og gott betur en það því við þegar fengið aðra aðila að verkinu sem er verktakafyrirtækið Búðingar. Þeir biðu ekki boðanna heldur eru byrjaðir að lagfæra lóð og palla við fjölbýlið í Fellabæ og við erum að gæla við að geta afhent þar fyrstu íbúðirnar strax í september. Hvað varðar íbúðirnar á Seyðisfirði þá eru tvö teymi klár í að hefja störf þar fljótlega eftir Verslunarmannahelgina og við ætlum að reyna að flýta því eins og kostur er. Gangi allt upp gætum við verið að afhenda fyrstu íbúðirnar í október eða nóvember.“

Líkt og í Fellabæ hefur engin hreyfing verið á hlutunum við byggingu nýrra íbúða fyrir eldri borgara á Seyðisfirði í langan tíma. Það mun breytast fljótlega eftir Verslunarmannahelgina. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.