Skip to main content

Geðlæknar sammála um sakhæfi Jóns Þórs

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. maí 2025 22:39Uppfært 12. maí 2025 11:49

Þeir geðlæknar sem báru vitni fyrir Héraðsdómi Austurlands í dag í máli gegn Jóni Þór Dagbjartssyni, sem kærður er fyrir að hafa reynt að bana fyrrum sambýliskonu sinni, voru samhljóma í áliti sínu um að Jón Þór hefði verið áttaður á verknaðarstundu og þar með sakhæfur.


Þrír geðlæknar, sem stóðu að baki tveimur geðmötum, komu fyrir dóminn þegar aðalmeðferð hélt áfram í dag. Þeir voru samhljóma í öllum lykilatriðum, þar stærst að gjörðir Jóns Þórs væri ekki hægt að heimfæra á þær greinar hegningalaga sem kveða á um að menn beri ekki ábyrgð á gjörðum ef þær stjórnist af geðrofi, ranghugmyndum eða öðru slíku ástandi.

Geðlæknarnir sögðu að Jón Þór hefði ekki verið haldinn neinum ranghugmyndum, ofskynjunum eða geðrofi sem flokkast gæti sem ósakhæfi. Hann hefði hins vegar verið mjög reiður og afbrýðissamur. „Hann hefur gloppótt minni en teljum að hann hljóti að hafa vitað hvað hann var að gera,“ sagði einn þeirra.

Jón Þór bar því við að hann myndi ekki eftir árásinni. Sá geðlæknir sem fyrstur kom fyrir réttinn sagði að óminni gæti komið upp vegna efnanotkunar, að menn þættust ekki muna atriði eða í hugrofi, sem sé einkenni sem oft komi upp undir miklu álagi og tengist áfallastreituröskun.

Allir geðlæknarnir sögðu Jón Þór bera merki áfallastreituröskunar, trúlega vegna atvika í æsku. Þær ræddu um hugrofið sem þeir sögðu ekki óumdeilt hugtak í geðlæknisfræðinni. Engar klárar skýringar hefðu fundist á því hvers vegna Jón Þór myndi ekki atburðina. Þá sögðu þeir útilokað að hár blóðþrýstingur hefði framkallað sturlunarástand en það hefði getað ýtt undir vanlíðan.

Punktblæðingar sýna að blóðflæði hafi verið truflað


Morguninn hófst á þeim læknum sem komu að því að hlúa að fyrrum sambýliskonu Jóns, Hafdísi Báru Óskarsdóttur eftir árásina. Í vottorðum þeirra var haft eftir henni að hún hefði ekki misst meðvitund þegar Jón Þór reyndi að kyrkja hana með járnkarli. Engin leið væri hins vegar að sanna það.

Réttarmeinafræðingur sagði Hafdísi hafa fengið punktblæðingar í andliti sem myndist við truflun blóðflæðis upp í höfuð. Engar afgerandi rannsóknir eru til um hver lengi þurfi að hindra flæðið til að fá fram slíkar blæðingar en sérfræðingurinn sagði samstöðu innan greinarinnar að það væri að minnsta kosti 15 sekúndur.

Hann sagðist ekki geta skorið úr um hvort Hafdís hefði verið sett í lífshættulegt ástand en krafturinn á hálsinn hefði getað truflað meðvitund. Hann sagði áverkana passa við lýsingar á árásinni. Þeir vitnuðu um þó nokkurn kraft og að mikið hefði gengið á.

Vitnaleiðslur eftir hádegið snérist aðallega um eldri ákærur, annars vegar fyrir líkamsárás gegn öðrum manni á Vopnafirði, hins vegar fyrir að hafa geymt óskráð vopn á heimili þeirra. Hvað varðaði árásina studdu þeir vitnisburðir alls ekki frásögn Jóns Þórs en að einhverju leyti um að hann hefði gert tilraunir til að fá vopnin réttilega skráð.

Árásin um þrjár mínútur


Í lok dags voru spilaðar upptökur af vettvangi. Fyrst var símtal Hafdísar Báru til Neyðarlínu frá 13. október þar sem Jóni Þór er gefið að sök að hafa komið óboðinn inn á heimili hennar og áreitt hana kynferðislega. Þar heyrist hún ítrekað skora á Jón Þór um að koma sér út úr húsinu á milli þess sem þau rífast heiftarlega.

Næst var upptaka úr öryggismyndavél á húsi Hafdísar sem sýnir atburðarásina að kvöldi 16. október, þegar honum er gefið að sök að hafa reynt að ráða hana af dögum, þótt árásin sjálf sjáist ekki. Sú atburðarás er í líkingu við þá sem Hafdís og önnur vitni hafa sagt frá en í nokkurri andstöðu við framburð Jóns Þórs. Eftir stutt samskipti í anddyri skemmunnar hverfa Hafdís og Jón Inn í hana en á upptökunni heyrast mikil öskur frá Hafdísi, ákall á hjálp og hósti áður en hún hljóðnar. Jón keyrir í burtu skömmu eftir að vinkona Hafdísar kemur út úr íbúðarhúsinu. Þessi atburðarás tók um þrjár mínútur.

Sex mínútum síðar kemur Jón Þór aftur keyrandi að skemmunni. Orðaskil voru óljós í dómssalnum að öðru leyti en því að vinkonan öskraði á Jón Þór að fara í burtu. Hann lét sér segjast eftir um fimm mínútur. Jón Þór hélt því fram í gær að hann myndi ekkert eftir að þessari seinni ferð.

Þriðja upptakan var af símtali vinkonunnar til Neyðarlínunnar þar sem hún lætur vita fyrst af yfirvofandi hættu þegar Jón nálgast skemmuna fyrst, síðan eftir árásina. Í eitt skipti má heyra Jón Þór í fjarska segja: „ég ætlaði mér bara að klára þetta“. Hafdís heyrist segja að hann sé nýbúinn að viðurkenna að hann ætli að hafi ætlað að drepa hana en sé nú að taka það fram.

Sagði lögreglu strax að árásin hefði verið mjög alvarleg


Að lokum voru spilaðar upptökur úr búkmyndavél lögreglumanns frá handtöku Jóns Þórs. Þar sést hann koma gangandi á móti ljósum lögreglubíls. Lögreglan spyr Jón Þór hvað hafi gerst og rekur hann atburðarásina gróflega frá sínu sjónarhorni. Hann segist eftir ákveðin orðaskipti hafa misst stjórn á sér og ráðist að henni. Lögreglumaðurinn fer yfir réttindi Jóns Þór sem bætir þó við: „þetta er mjög alvarlegt.“

Aðalmeðferð málsins lýkur á morgun með málflutningi. Þar mun meðal annars koma í ljós hversu þunga refsingu saksóknari óskar eftir.