Gera kröfur um mótvægisaðgerðir vegna skógar sem víkur fyrir sumarhúsum á Eiðum

Land og skógur gerir kröfu um að landeigendur á Eiðum rækti aftur upp þann skóg sem felldur verður vegna byggingar sumarhúsabyggðar innan við Eiðavatn. Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun vara við áhrifum af minnkun votlendis. Áformin hafa minnkað verulega síðan þau voru fyrst kynnt.

Þetta kemur fram í umsögnum stofnanna við auglýsta tillögu um breytingu á aðalskipulagi Múlaþings en frestur til að skila inn athugasemdum rann út í síðustu viku.

Tillagan gengur út á að skipuleggja svæði fyrir 50 sumarhús sunnan við Eiðavatn. Umfangið hefur minnkað verulega síðan áformin voru fyrst kynnt þegar landeigendur vildu reisa allt að 160 sumarhús. Deiliskipulagssvæði vegna byggðarinnar nær alls yfir 65 hektara lands.

Trjáplöntur sem geta orðið meira en tveir metrar teljast skógur


Land og skógur kröfu um að sá skógur sem felldur verður vegna byggðarinnar verði bættur á einhvern hátt samkvæmt ákvæði í skógræktarlögum um að varanleg eyðing skóga án mótvægisaðgerða sé óheimil.

Stofnunin telur misskilnings gæta í skipulaginu um að trjágróður sem ekki hafi náð tveggja metra hæð flokkist sé kjarr og þurfi því ekki að bæta. Hið rétta sé að tré sem geti náð meira en tveggja metra hæð fullvaxin flokkist sem skógur, þótt þau hafi ekki enn vaxið upp í tveggja metra markið. Áætlað er að sex hektarar skóglendis séu undir.

Náttúrufræðistofnun telur jákvætt að dregið hafi verið úr umfangi sumarhúsabyggðarinnar. Í hennar umsögn er einnig bent á skógeyðinguna en einnig fjallað um hættuna á að eigendur sumarhúsanna gróðursetji framandi og mögulega ágengar plöntur. Stofnunin telur þá staðreynd að slíkar tegundir séu fyrir á svæðinu enga ástæðu til að leyfa meira. Setja eigi ströng skilyrði um hvers konar gróður sé leyfður og frekar fara í átak gegn þeim aðskotaplöntun sem mættar séu. Þá telur stofnunin rétt að kanna útbreiðslu eggtvíplötu sem vex í Eiðahólma og hvort hana sé að finna víðar meðfram bökkum Eiðavatns.

Gagnrýna rask á votlendi


Náttúrufræðistofnun gerir athugasemd við að umfjöllun vanti um áhrif á fuglalíf, sem sé ríkt á svæðinu. Stofnunin segir grágæs þar algenga, rjúpur og fleiri spörfuglategundir, vatnafugla og vaðfugla sem sæki í vatnið og nágrenni þess.

Umhverfisstofnun gagnrýnir áformaða röskun á votlendi, sem sé varið með lögum og telur ekki nógu vel hafa verið sýnt fram á þá almannahagsmuni sem þar liggi að baki. Við umræður í sveitarstjórn Múlaþings í vetur lýsti meirihlutinn því að byggðin gæti styrkt mannlíf á Eiðum. Náttúrufræðistofnun vill færa fjögur sumarhús fjær vatninu.

Stofnunin hvetur einnig Múlaþing til að vernda sambærileg svæði á Úthéraði sem einkennist af fjölbreyttri og lítt raskaðri mósaík vatna, votlendis og klapparása. Upplýsingar um slík svæði séu í Náttúrumæraskrá Fljótsdalshéraðs.

Deilur í nefndum Múlaþings


Landeigenda bíður nú að fara yfir athugasemdir og svara þeim. Síðan má búast við að tillagan verði auglýst og eftir það lögð fyrir sveitarstjórn Múlaþings til staðfestingar eða synjunar.

Ekki var einhugur um skipulagstillöguna þegar hún var afgreidd úr umhverfis- og framkvæmdaráði Múlaþings í febrúar. Þrír fulltrúar Austurlista og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, greiddu atkvæði. Þeir töldu að ekki hefði verið með nægjanlegum hætti verið sýnt fram á að brýnir almannahagsmunir réttlættu framkvæmdirnar.

Við Eiðavatn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.