Gera skipti á nýju tjaldsvæði og fjölbýlishúsalóðum á Eskifirði
Hætt hefur verið við að deiliskipuleggja nýjar stórar fjölbýlishúsalóðir ofan við Dalbraut á Eskfirði og verða skipti á þeim lóðum við stóra lóð sem ætluð var nýju tjaldsvæði og ferðaþjónustu neðan við sama veg.
Breytingarnar, sem skipulags- og umhverfisfulltrúi Fjarðabyggðar lagði til fyrir nokkru, á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna deiliskipulags nýs íbúðasvæðis á Eskifirði voru samþykktar á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar fyrir skömmu. Við þá ákvörðun var bæði tillit til athugasemda frá íbúum en ekki hvað síst frá Veðurstofu Íslands vegna hættumats snjóflóða.
Úr varð, sökum þess að ekki er ráð gert fyrir notkun á tjald- og ferðaþjónustusvæði að vetrarlagi, að hafa skipti á þessum tveimur umræddu lóðum en lóðastærð beggja svæða helst óbreytt.
Forsíðumynd skjáskot af Google Maps af svæðinu sem um ræðir í Fagradal innarlega á Eskifirði. Meðfylgjandi mynd úr fórum skipulags- og umhverfisfulltrúa Fjarðabyggðar og sýnir hvernig svæðið verður eftir skipulagsbreytingarnar.