Skip to main content

Gerlamengun í þremur sundlaugum Austurlands á síðasta ári

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. júl 2025 14:20Uppfært 29. júl 2025 14:25

Óvenju margir sundstaðir á Austurlandi stóðust ekki kröfur um hollustuhætti á síðasta ári samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Heilbrigðiseftirlits Austurlands (HAUST.) Einar þrjár sundlaugar féllu á því prófi.

Í ársskýrslu HAUST koma gjarnan fram upplýsingar sem erindi eiga við almenning en það er meðal annars á höndum eftirlitsins að gæta að því að ákvæðum reglugerða um hollustu, heilnæmi og almennt öryggi sé að gætt og uppfyllt á sund- og baðstöðum.

Á síðasta ári tók eftirlitið sýni úr vatni 58 sund- eða baðstaða og reyndus 84% sýnanna standast gæðakröfur en 16% ekki. Hlutfall þeirra sem ekki stóðust kröfurnar ekki verið hærra um fjögurra ára skeið.

Að sögn Láru Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóra, kom sérstaklega á óvart að þrír stærri sundstaðir féllu á prófinu í fyrra en það hafði ekki gerst um langa hríð.

„Það kom okkur á óvart þetta óvanalega háa hlutfalla á þeim stöðum en annars eru það oftast nær sýni úr baðstöðum við gististaði sem ekki standast gæðakröfurnar. Sundlaugarnar hafa yfirleitt staðið sig mjög vel.“

Að sögn Láru er endurskoðun hafin á reglugerð um baðstaði í náttúrunni sem brýn þörf er á enda sú reglugerð frá árinu 1999 eða vel áður en flestir baðstaðir og lón fóru að opna víða um landið úti í náttúrunni. Til marks um hve gæðaviðmið eru brengluð gilda harðari reglur um mengun úr skólprörum út í sjó en raunin er með vatnsgæði á baðstöðum í náttúrunni.

Sundlaugar á Austurlandi koma jafnan mjög vel út úr hollustumælingum heilbrigðiseftirlits en í fyrra reyndust þrjár þeirra ekki með sitt á hreinu. Sundlaug Egilsstaða ekki endilega ein af þeim. Mynd GG