Skip to main content

Gerpir NK-111 seldur frá Norðfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. maí 2023 12:14Uppfært 31. maí 2023 12:34

Gerpir NK-111, sem fyrir nokkrum árum var gerður upp á vegum SÚN til siglingar með ferðamenn um Norðfjörð, hefur verið seldur frá staðnum.


Gerpir lét úr höfn væntanlega í síðasta sinn fyrir sléttri viku. Hann hefur verið seldur til Húsavíkur þar sem hann mun sinna siglingum með ferðamenn sem vilja skoða hvali á Skjálfanda.

„Hann var gerður út á vegum SÚN og síðar Hótel Hildibrand en ekkert verið notaður síðustu tvö ár. Þess vegna ákvað stjórn SÚN að selja hann,“ segir Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN.

Um er að ræða eikarbát smíðaðan árið 1976 hjá Básum hf. í Hafnarfirði. Hann hét upphaflega Aldan RE. Samkvæmt upplýsingum á Skipamyndasíðu Hafþórs Hreiðarssonar á Húsavík var báturinn síðar seldur til Vopnafjarðar í lok árs árið 1981 og gerður út þaðan í tvö ár sem Þerna NS áður en hann var aftur seldur suður í Garð og gerður út sem Sigurvin GK.

Frá árinu 1988 til ársins 1996 fór hann víða um land, hét Seifur NS og var gerður út frá Bakkafirði, síðan Kambavík SU 24 frá Breiðdalsvík en einnig Haförn HU og Garpa GK. Hann var síðan keyptur til Norðfjarðar árið 1996 og fékk nafnið Jón Björn NK 111.

SÚN eignaðist bátinn árið 2003. Hann var í fyrstu nýttur til að þjónusta þorskeldi á vegum Síldarvinnslunnar en síðar var ákveðið að breyta honum fyrir farþegasiglingar og hlaut hann þá nafnið Gerpir NK. Því var lokið árið 2014 og hafði hann þá eftir það leyfi til að sigla með 45 farþega.

Þær siglingar gengu sem fyrr segir í ein sex ár. Báturinn þótti þó heldur hæggengur til að hægt væri að sýna ferðafólki helstu perlur Norðfjarðarflóans, svo sem Rauðubjörg og Hellisfjörð á þeim tíma sem það er viljugt til að sigla á.