Gert ráð fyrir hagnaði á Fljótsdalshéraði: Ýmsar hækkanir

egilsstadir.jpgGert er ráð fyrir hagnaði af rekstri sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs á næsta ári. Útsvar verður óbreytt en ýmsar gjaldskrár hækka. Boðað hefur verið til borgarafundar um áætlunina annað kvöld.

 

Gert er ráð fyrir 19,5 milljóna króna hagnaði af rekstri sveitarfélagsins, hálfri milljón af A-hluta , sem er inn eiginleg sveitarsjóður en 19 milljónum frá B-hluta sem eru þau fyrirtæki sem eru að mestu eða öllu í eigu sveitarfélagsins og þjónustutekjur eiga að standa undir rekstrarútgjöldum. Þau eru Félagslegar íbúðir, HEF ehf, Brunavarnir á Héraði, Minjasafn Austurlands, Dvalarheimili aldraðra og Atvinnumálasjóður.

Í tilkynningu frá sveitarfélaginu um fjárhagsáætlunina segir að það hafi átt í samskiptum við eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga í ljósi þungrar stöðu. Samskiptin hafi verið í formi reglulegrar upplýsingagjafa. Á þingi hefur verið lögð fram tillaga um reglur um fjármál sveitarfélaga og er tekið mið af þeim tillögum í áætluninni.

Gert er ráð fyrir óbreyttu útsvari, 13,28%, í áætlunum en það kann að hækka um 1,20 prósentustig með flutningi þjónustu við fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Ýmis fleiri stórverkefni eru á döfinni á næsta ári. Unnið er að byggingu hjúkrunarheimilis fyrri aldraða á Egilsstöðum, Unglingalandsmót UMFÍ verður þar næsta sumar og HEF stendur í framkvæmdum.

Ýmsar gjaldskrárhækkanir hafa verið boðaðar til að bæta fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Leikskólagjöld hækka um 8% frá áramótum og fæðisgjald um 20%. Almennt tímagjald í leikskólum sveitarfélagsins hækkar um tæpar eitt þúsund krónur. Skólagjöld í tónlistarskólum sveitarfeálgsins hækka um 20% en þau hafa ekki hækkað í nokkur ár.

Haldinn verður borgarafundur um fjárhagsáætlunina annað kvöld, 9. desember, í Egilsstaðaskóla. Hann hefst klukkan 20:00 og munu bæjarstjóri og bæjarfulltrúar sitja fyrir svörum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.