Gert við Fljótsdalslínu 2 í dag
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. nóv 2023 09:51 • Uppfært 08. nóv 2023 10:04
Viðgerðum á Teigarhornslínu 1 lauk seint í gærkvöldi. Þar með er önnur línan af þeim tveimur sem flytja rafmagn inn á mið-Austurland komin í eðlilegt ástand. Farið verður í viðgerðir á Fljótsdalslínu 2 í dag.
Vandræði hafa verið á raforkukerfinu á Austurlandi í vikunni vegna mikillar ísingar. Aðfaranótt þriðjudags fór rafmagn af öllu svæðinu frá Teigarhorni í Berufirði til Vopnafjarðar í um tvær klukkustundir.
Aðalástæðan mun hafa verið að þá brotnaði stæða í Teigarhornslínu 1, sem flytur rafmagn inn á mið-Austurland úr suðri frá Teigarhorni að tengivirki að Hryggstekk í Skriðdal. Þaðan liggja línur áfram í stór tengivirki að Stuðlum í Reyðarfirði og Eyvindará við Egilsstaði.
Viðgerð á stæðunni sem brotnaði á Öxi stóð yfir í allan gærdag og lauk klukkan rúmlega níu í gærkvöldi. „Þetta var mikið verk en gekk heilt yfir vel,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.
Vonast til að viðgerð ljúki í dag
Bilunin á Teigarhornslínunni hefði verið minna mál ef Fljótsdalslína 2, sem flytur rafmagn til Hryggstekks úr norðri úr Fljótsdalsstöð, væri ekki illa farin eftir ísingarveðrið í byrjun vikunnar. Gert var við hana til bráðabirgða á mánudagskvöld.
Hægt var að halda henni gangandi í gær þrátt fyrir brotnar einangrunarskálar. Þá kom í ljós að leiðari lá niðri á einum stað. Þrjú viðgerðagengi eru lögð af stað til að gera við línuna og er vonast til að það klárist í dag. Bilanirnar á Fljótsdalslínu eru á Hallormsstaðahálsi, þekktu ísingarsvæði.
Þrátt fyrir skemmdirnar hélst Fljótsdalslínan inni í allan gærdag þannig að engar rafmagnstruflanir urðu á Austurlandi. „Við erum rórri í dag með eina línu í lagi. Kerfið er alltaf viðkvæmt þegar önnur af stóru línunum er úti en í gær var önnur þeirra alveg úti og hin löskuð,“ segir Steinunn. Aðstæður hafa einnig skánað, bæði upp á viðgerðir en einn áframhaldandi ísingu.
Skýjaísing og bakflæði
Í færslu á vef veðurstofunnar Bliku segir að ísingin í byrjun vikunnar sé vegna skýjaísingar, sem sé merkileg fyrirbrigði. Hún myndast í skýjahæð, 350 metrum og gofar, þegar rakamettað loft berst með vindi og undirkældir smádropar frjósi þegar þeir rekast á það sem fyrir verður. Smám saman þyngist hluturinn og skemmist, í þessu tilfelli raflínur og möstur. Þá virðist vindmælir á Hallormsstaðahálsi hafa frosið fastur á fimmtudag og ekki losnað fyrr en byrjaði að hlána í gær. Línurnar þar ná upp í 570 metra hæð.
Á vef Bliku segir um bakflæði í veðurkerfum að ræða, lægðir fyrir sunnan og suðaustan land beina raka úr lægri lögum af hafsvæðum djúpt austur og norðaustur af landinu í veg fyrri kaldara og þurrara loft úr norðri. Svipuð veðurstaða og undanfarna viku kom upp í febrúar 2014 og olli þá líka mikilli ísingu á raflínur og rafmagnstruflunum á Austurlandi.
Farið af stað til viðgerða í morgun. Mynd: Landsnet