Gestum fjölgað um 20% við helstu ferðamannaperlur Austurlands
Gestum við helstu ferðamannaperlur Austurlands, Stuðlagil, Hafnarhólma og Hengifoss, hefur fjölgað verulega það sem af er ári miðað við síðasta ár og hafa aldrei mælst fleiri síðan teljarar voru settir upp á þessum stöðum.
Helsti ferðamannatíminn í landinu er að mestu liðinn undir lok á þessum tímapunkti þó það liggi fyrir að umferð ferðafólks sé nokkur yfir vetrartímann líka. Ljóst er, samkvæmt mælingum Ferðamálastofu, að gestafjöldi við Stuðlagilið og Hafnarhólmann hafa aldrei verið fleiri og er um 20 prósent aukningu að ræða á báðum stöðum frá síðasta ári. Alls hafa tæplega 167 þúsund gestir drepið niður fæti báðum megin Stuðlagils hingað til en allt árið í fyrra var fjöldinn 139 þúsund. Gestakomur í Hafnarhólma á Borgarfirði eystra hingað til teljast rúmlega 47 þúsund en voru 39 þúsund allt síðasta ár.
Samkvæmt mælum við Hengifoss hefur þar heldur dregið úr heimsóknum frá síðasta ári en samkvæmt heimildum Austurfréttar hafa teljarar þar verið bilaðir hluta sumars og því ómartækir. Ekkert bendir til annars en gestum hafi einnig fjölgað þar töluvert milli ára.