Gettu betur hefst í kvöld: Gamall ME-ingur þjálfar mótherjana

Spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur hefst á Rás 2 í kvöld. Bein útsending frá keppninni hefst klukkan 19.30 með keppni Flensborgarskóla og Borgarholtsskóla. Síðan mætir Menntaskólinn á Egilsstöðum liði Framhaldsskólans í Mosfellsbæ en það þjálfar fyrrum keppandi ME. Lið ME og Verkmenntaskóla Austurlands mættust í æfingakeppni í gærkvöldi.

gettu_betur.jpgLið Menntaskólans á Egilsstöðum og Verkmenntaskóla Austurlands sem keppa í Gettu betur spurningakeppni framhaldsskólana mættust í æfingakeppni á Sal Menntaskólans á Egilsstöðum í gærkvöldi.

Liðin tóku alls fimm keppnir sem allar enduðu með sigri ME. Keppnirnar voru liður í lokaundirbrúngini liðanna fyrir fyrstu umferð Gettu betur 2011 sem hefst í kvöld.

Lið Menntaskólans á Egilsstöðum  er skipað þeim sömu og kepptu að hálfu ME í sjónvarpi í fyrra, þeim Hrólfi Eyjólfssyni, Arnari Jóni Guðmundssyni og Jóhanni Atla Hafliðasyni. Stefán Bogi Sveinsson þjálfar þá líkt og í fyrra.  ME mætir í kvöld klukkan 20:00 liði Fjölbrautaskóla Mosfellsbæjar, en þá hefst Gettu betur á Rás 2.

Lið VA er skipað  Húnboga Gunnþórssyni, Guðmundi Daða Guðlaugssyni og Garðari Eðvaldssyni. Þjálfari þeirra er Jón Svanur Jóhannesson, kennari á Eskifirði og liðsmaður Útsvarsliðs Fjarðabyggðar. Þeir mæta MK í seinustu keppni fyrstu umferðar á Rás 2 á föstudagskvöldið næstkomandi klukkan 20:30.

Þrír aðilar sem hafa verið í keppnisliðum Menntaskólans á Egilsstöðum þjálfa spurningalið annarra skóla að þessu sinni.

Þjálfari liðs FM sem ME keppir við í kvöld á Rás 2, er Birgir Jónsson, sem var í sjónvarpsliði ME í þessari sömu keppni árið 2005. Eiríkur Guðmundsson þjálfar lið Menntaskólans Hraðbrautar, sem mætir Menntaskólanum Hamrahlíð á þriðjudag. Egill Gunnarsson þjálfar lið starfsmenntabrautar á Hvanneyri sem mætir Menntaskólanum á Akureyri á fimmtudag.


Breiðdælingurinn Birgir, sem kennir sögu í Mosfellsbæ, kættist ekki þegar nýi skólinn hans dróst gegn þeim gamla.

„Ég óttaðist að mæta gamla skólanum, ekki vegna þess hvað hann er sterkur, heldur vegna þess að þetta er gamli skólinn minn sem ég nam við í fimm ár með hléum.Ég tek þessu eins og öllu öðru, hefði þó viljað fá alla aðra alla skóla frekar, jafnvel MA eins og í fyrra. Þetta var það versta sem ég gat hugsað mér þannig séð." 

Birgir segir að það sé áskorun að byggja upp Gettu betur hefð við FM og vonast til að koma skólanum á sama stall og ME situr nú á.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.