Giftusamleg björgun manns í sjálfheldu í Hólmatindi

Björgunarsveitarmenn frá Ársól á Reyðarfirði, Gerpi Neskaupstað og Brimrúnu frá Eskifirði auk lögreglu og þyrlu Landhelgisgæslunnar tóku þátt í að bjarga erlendum manni sem komist hafði í sjálfheldu hátt í hlíðum Hólmatinds í gærkvöldi. Alls tóku aðgerðirnar um sex klukkustundir vel fram á nótt en allt tókst giftusamlega.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var um að ræða mann af erlendu skipi sem fyrr um daginn hafði lagst að í Eskifjarðarhöfn. Nokkur tilviljun olli því að til mannsins sást en björgunarsveitarmenn Brimrúnar voru einmitt á bátaæfingu í firðinum þegar vart varð ljóss hátt í hlíðum bratts fjallsins um klukkan 20.30 í gærkvöldi. Var aðgerðastjórn virkjuð um leið og óskað strax eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Varð fljótt ljóst að viðkomandi var í hættulegum aðstæðum í um fimm hundruð metra hæð og myrkri og reyndist unnt að greina að viðkomandi væri í sjálfheldu í fjallinum með aðstoð dróna. Tókst að ná sambandi við manninn og fá hann til að vera um kyrrt á sínum stað en það tók björgunarsveitir fimm klukkustundir að komast til mannsins enda bæði bratt, hált og niðamyrkur en góðu heilli voru öflugir ljóskastarar við höndina í bátum björgunarsveitarinna.

Að því er fram kemur í tilkynningu lögreglu var maðurinn þá orðinn kaldur og þróttlaus en við sæmilega heilsu. Beið björgunarsveitarfólk með manninum þar til þyrlan komst á staðinn um klukkan 02.15 og flutti manninn til aðhlynningar á Eskfirði. Hann þurfti ekki innlögn á sjúkrahús.

Öflugir ljóskastarar björgunarbáta komu sannarlega að gagni í gærkvöldi og nótt eins og myndin ber með sér en brattinn er mikill í fjallinu og lítið hefði mátt út af bera. Mynd Björgunarsveitin Brimrún

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.