
Giftusamleg björgun manns í sjálfheldu í Hólmatindi
Björgunarsveitarmenn frá Ársól á Reyðarfirði, Gerpi Neskaupstað og Brimrúnu frá Eskifirði auk lögreglu og þyrlu Landhelgisgæslunnar tóku þátt í að bjarga erlendum manni sem komist hafði í sjálfheldu hátt í hlíðum Hólmatinds í gærkvöldi. Alls tóku aðgerðirnar um sex klukkustundir vel fram á nótt en allt tókst giftusamlega.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var um að ræða mann af erlendu skipi sem fyrr um daginn hafði lagst að í Eskifjarðarhöfn. Nokkur tilviljun olli því að til mannsins sást en björgunarsveitarmenn Brimrúnar voru einmitt á bátaæfingu í firðinum þegar vart varð ljóss hátt í hlíðum bratts fjallsins um klukkan 20.30 í gærkvöldi. Var aðgerðastjórn virkjuð um leið og óskað strax eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Varð fljótt ljóst að viðkomandi var í hættulegum aðstæðum í um fimm hundruð metra hæð og myrkri og reyndist unnt að greina að viðkomandi væri í sjálfheldu í fjallinum með aðstoð dróna. Tókst að ná sambandi við manninn og fá hann til að vera um kyrrt á sínum stað en það tók björgunarsveitir fimm klukkustundir að komast til mannsins enda bæði bratt, hált og niðamyrkur en góðu heilli voru öflugir ljóskastarar við höndina í bátum björgunarsveitarinna.
Að því er fram kemur í tilkynningu lögreglu var maðurinn þá orðinn kaldur og þróttlaus en við sæmilega heilsu. Beið björgunarsveitarfólk með manninum þar til þyrlan komst á staðinn um klukkan 02.15 og flutti manninn til aðhlynningar á Eskfirði. Hann þurfti ekki innlögn á sjúkrahús.
Öflugir ljóskastarar björgunarbáta komu sannarlega að gagni í gærkvöldi og nótt eins og myndin ber með sér en brattinn er mikill í fjallinu og lítið hefði mátt út af bera. Mynd Björgunarsveitin Brimrún