Gilin ofan Neskaupstaðar að hreinsa sig

Nokkur snjóflóð hafa fallið ofan Neskaupstaðar í dag. Vegna þeirra hefur verið ákveðið að rýma efstu húsin undir varnargörðunum í öryggisskyni.

Fjögur flóð hafa þegar verið skráð á vef Veðurstofunnar en fleiri hafa verið tilkynnt samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðadeildinni.

Flest eru skráð af stærð 2. Slík flóð eru hættuleg gangandi fólki. Eitt stærra flóð er skráð upp á 2,5, úr Innra-Tröllagili. Það náði niður á neðstu varnarkeilurnar. „Þetta eru ekki stór flóð en heldur ekki lítil,“ segir Minney Sigurðardóttir, sérfræðingur á ofanflóðavakt Veðurstofunnar.

„Það er gott að þessi flóð komi svona niður. Það þýðir að gilin ofan við bæinn eru að hreinsa sig,“ bætir hún við.

Húsin næst varnargörðunum voru rýmd á þriðja tímanum í dag. Er það í takti við nýjar verklagsreglur Veðurstofunnar um að rýma til öryggis ef snjóflóð falla á snjóflóðavarnarmannvirki því hætta sé á að spýjur úr flóðum sem á eftir koma geti slest yfir.

Ekki hefur verið tilkynnt um ofanflóð annars staðar á Austfjörðum enn en fregnir borist af miklu vatni á ferðinni samfara rigningu og hlýnandi veðri.

Brýnt er fyrir fólki að fara með gát, sérstaklega nærri þekktum skriðufarvegum. Hægt er að senda inn ábendingar um ofanflóð í gegnum vef Veðurstofunnar.

Mynd frá Landsbjörgu, tekin í gær.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.