Skip to main content

Gilin ofan Neskaupstaðar að hreinsa sig

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. mar 2023 14:57Uppfært 30. mar 2023 15:01

Nokkur snjóflóð hafa fallið ofan Neskaupstaðar í dag. Vegna þeirra hefur verið ákveðið að rýma efstu húsin undir varnargörðunum í öryggisskyni.


Fjögur flóð hafa þegar verið skráð á vef Veðurstofunnar en fleiri hafa verið tilkynnt samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðadeildinni.

Flest eru skráð af stærð 2. Slík flóð eru hættuleg gangandi fólki. Eitt stærra flóð er skráð upp á 2,5, úr Innra-Tröllagili. Það náði niður á neðstu varnarkeilurnar. „Þetta eru ekki stór flóð en heldur ekki lítil,“ segir Minney Sigurðardóttir, sérfræðingur á ofanflóðavakt Veðurstofunnar.

„Það er gott að þessi flóð komi svona niður. Það þýðir að gilin ofan við bæinn eru að hreinsa sig,“ bætir hún við.

Húsin næst varnargörðunum voru rýmd á þriðja tímanum í dag. Er það í takti við nýjar verklagsreglur Veðurstofunnar um að rýma til öryggis ef snjóflóð falla á snjóflóðavarnarmannvirki því hætta sé á að spýjur úr flóðum sem á eftir koma geti slest yfir.

Ekki hefur verið tilkynnt um ofanflóð annars staðar á Austfjörðum enn en fregnir borist af miklu vatni á ferðinni samfara rigningu og hlýnandi veðri.

Brýnt er fyrir fólki að fara með gát, sérstaklega nærri þekktum skriðufarvegum. Hægt er að senda inn ábendingar um ofanflóð í gegnum vef Veðurstofunnar.

Mynd frá Landsbjörgu, tekin í gær.