„Gjaldfrjálsar skólamáltíðir þarft lýðheilsu- og jafnaðarmál“
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. maí 2022 13:45 • Uppfært 05. maí 2022 13:45
Togast hefur verið á um skólamáltíðir, sem gerðar voru gjaldfrjálsar í skólum Fjarðbyggðar á kjörtímabilinu, í kosningabaráttunni þar, líkt og fyrir fjórum árum. Frambjóðendur Fjarðalistans hafa hamrað á að þær séu mikilvægar fyrir börn fólks af ýmsum stigum þjóðfélagsins meðan frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins spyrja hvort sveitarfélagið hafi efni á þeim.
„Við erum stolt af þeim árangri sem náðust hefur í velferð fjölskylda, svo sem að hafa gert skólamáltíðir gjaldfrjálsar. Þar er um að ræða þarft lýðheilsu- og jafnaðarmál,“ hefur Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans sagt í framsöguræðum sínum.
Á fleiri en einum þeirra framboðsfunda, sem haldnir hafa verið í Fjarðabyggð í vikunni, hefur verið spurt út í skólamáltíðirnar undir mismunandi formerkjum. Á Stöðvarfirði var spurningu beint til frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins um hvort þeir hygðust afnema fríu máltíðirnar kæmust þeir til meirihluta.
„Þegar gjaldfrjálsu máltíðirnar voru settar á stóðum við á því að ekki væri svigrúm í rekstrinum. Við erum enn sömu skoðunar. Það er ekki skilyrði frá okkur að afnema þær en það þarf að vera svigrúm í rekstri,“ svaraði Ragnar Sigurðsson, oddviti flokksins og bætti við að farið yrði í úttekt til að rýna fjármál sveitarfélagsins.
Foreldrar sem hafa ekki tíma til að útbúa nesti
Á Fáskrúðsfirði var spurt hvort reiknað hefði verið út hversu mörg börn hefðu ekki fengið að borða áður fyrr. Ragnar kannaðist ekki við slíka greiningu. Arndís Bára Pétursdóttir, sem skipar þriðja sæti Fjarðalistans og starfar í skóla, benti á að erfitt væri að taka saman slíkar tölur af nákvæmni.
„Það er erfitt að fá réttar tölur um hve mörg börn fá ekki að borða. Mörg börn fela það. Ég hef líka upplifað sjálf að foreldrar biðja ekki um aðstoð. Ég get vottað að þessi aðgerð léttur undir með barnafjölskyldum, einkum þeim sem eiga mörg börn. Í öllum sveitarfélögum er fátækt fólk en fyrst og fremst rennur þessi lækkun til barnanna,“ sagði hún þar.
Bæði þar og fleiri fundum hefur hún lagt áherslu á að aðgerðin hafi ekki bara nýst börnum tekjulágra. „Það er oft mikið að gera á heimilum. Við sjáum krakka ríkari foreldra sem ekki koma með nesti. Við sjáum hvað þetta hefur mikil áhrif á frammistöðu nemenda,“ hefur hún sagt.
Garðsláttur eldri borgara tekjutengdur
Annar vinkill bættist við umræðuna á Fáskrúðsfirði þar sem íbúi benti á að eldri borgarar þyrftu að skila inn skattaskýrslu til að eiga rétt á garðslætti. Slíkt gæti skapað vandræði, þeir sem ættu peninga en gætu ekki slegið af líkamlegum ástæðum fengju ekki sláttinn. Þetta væri niðurlægjandi fyrir eldra fólkið og í ósamræmi við að á sama tíma fengi margt ríkt fólk fríar máltíðir fyrir börnin.
Ragnar sagðist skilja að þetta væri fráhrindandi og nær væri að miða þjónustuna við ákveðinn aldur. Anna Berg Samúelsdóttir frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði sagðist ekki þekkja til skilyrðanna um skattaskýrsluna en þætti lýsingin ómannúðleg.
Af hálfu fulltrúa meirihluta Framsóknarflokks og Fjarðalista var minnt á að fyrir núverandi kjörtímabil hefði hvorki verið í garðsláttur né snjómokstur fyrir eldri íbúa, sem nú hefði verið komið á. Stöðugt þyrfti að meta árangurinn og vissulega hefði ekki allt gengið upp í fyrstu atrennu.
„Ég viðurkenni að þetta hefur ekki verið án þyrna. Okkur hefur meðal annars vantað fólk til að sinna þjónustunni. Garðslátturinn átti að vera tekjutengdur þannig að tekjuhærri greiddu hóflegt gjald. Mér þykir vont ef einhver hefur ekki fengið garðslátt,“ sagði Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og oddviti Framsóknarflokksins.
Hjördís Helga Seljan kvaðst vonast til að heyra frá íbúum um hvernig þeim hefði þótt þjónustan. Mikilvægt hefði verið talið að koma henni á. Hún minnti á að á líðandi kjörtímabili hefði stefnumótun í málefnum aldraðra í Fjarðabyggð hafist og öldungaráð orðið að fastanefnd.