Fjöldi gjaldþrota fyrirtækja á Austurlandi á árinu sá sami og allt síðasta ár
Fjögur fyrirtæki eða einkahlutafélög höfðu lýst yfir gjaldþroti á Austurlandi í byrjun ágústmánaðar. Það sami fjöldi og allt árið í fyrra en töluvert færri en metárið 2023 þegar ein ellefu fyrirtæki í fjórðungnum fóru í þrot.
Gjaldþrot fyrirtækja á Austurlandi hafa færst töluvert í vöxt síðustu tíu árin eða svo umfram það sem gerðist fyrir þann tíma samkvæmt tölfræði Creditinfo sem Austurfrétt óskaði eftir.
Fram til ársins 2016 var hending ef fjöldi fyrirtækja sem lýstu árlega yfir gjaldþroti reyndust fleiri en eitt eða tvö fyrirtæki. Síðan þá hefur venjan verið að fjögur til fimm fyrirtæki leggja upp laupana ár hvert. Þar af algjör metár 2023 þegar ellefu fyrirtæki voru úrskurðuð gjaldþrota.
Aukinn fjöldi gjaldþrota hefur átt sér stað þrátt fyrir að íbúum Austurlands hafi fjölgað. Fólksfjölgunin alls tæp 18% frá árinu 2005 þó á sama tíma hafi fólksfjölgun orðið mun meiri í öðrum landshlutum svo hlutfall Austfirðinga af heildarmannfjölda Íslands minnkar jafnt og þétt. Nú búa aðeins 2,8% íbúa landsins í fjórðungnum.
Jákvæð teikn
Þó gjaldþrotum hafi fjölgað töluvert hin síðustu ár eru þó góð teikn á lofti sé mið tekið af þeim fjölda fólks sem stofna einhvers konar fyrirtæki austanlands en venjan er jafnan að leggja ekki í slíkt ferðalag nema hlutaðeigendur sjái sannarlega þörf fyrir tiltekna nýja þjónustu.
Ein 55 ný fyrirtæki með heimilisfesti á Austurlandi voru skráð í bókum Creditinfo á árinu í byrjun ágúst en þeim farið fjölgandi árlega frá árinu 2021. Meðalfjöldi nýstofnaðra fyrirtækja í fjórðungnum ár hvert minnst 20 ár aftur í tímann eru um 75 talsins en metárið var 2016 þegar hvorki fleiri né færri en 101 fyrirtæki var sett á laggirnar. Þá voru stofnuð 98 fyrirtæki á síðasta ári sem var mesti fjöldinn frá metárinu 2016.