Skip to main content

„Gjörningurinn að spara í rekstri var fundinn upp á Austurlandi“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. okt 2023 15:23Uppfært 05. okt 2023 15:26

Samskip og Eimskip stóðu saman að því að segja upp samningi um þjónustu við Austfar á Seyðisfirði árið 2009. Það var hluti af skiptum félaganna á flutningamarkaðinum á Austurlandi. Samkeppniseftirlitið telur stjórnendur fyrirtækjanna hafa logið að bæjaryfirvöldum þegar þau kröfðust skýringa.


Þetta kemur fram í áliti Samkeppniseftirlitsins frá í lok ágúst um samráð Samskipa og Eimskips á íslenskum flutningamarkaði á árunum 2008-2013.

Meðal þess sem þar er tekið fyrir er hvernig fyrirtækin skiptu flutningum á Austurlandi á milli sín. Þau skiptust á að þjónusta hvort annað þannig þau ættu ekki í beinni samkeppni. Þannig sáu Samskip um að keyra milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar en Eimskip keyrði frá Reyðarfirði til Norðfjarðar um Eskifjörð.

Samkeppniseftirlitið telur samráðið hafa hafist sumarið 2008 og frekari drög verið lögð að því á haustmánuðum. Hins vegar má lesa út úr úrskurðinum að allt frá 2005 hafi þrifist samráð í landflutningum á nokkrum stöðum án sérstaks leyfis og þar af leiðandi gegn lögum.

Eimskip fór að tillögu Samskipa


Meðal þess sem er rakið í álitinu er hvernig staðið var að lokun vöruafgreiðslu á Seyðisfirði árið 2009. Þar hafði Austfar séð um þjónustuna. Samkeppniseftirlitið segir Samskip hafa lagt til við Eimskip að samningunum við Austfar yrði sagt upp en Seyðisfirði í staðinn sinnt frá Egilsstöðum.

Í álitinu er vitnað beint í tölvupóst svæðisstjóra Eimskips á Austurlandi þann 26. maí sem merktur er „Trúnaðarmál/Seyðisfjörður“. Þar segir hann hreint út að Samskipsmenn hafi vikuna áður lagt til að bæði Samskip og Eimskip myndu segja upp afgreiðslusamningi sínum við Austfar og þjónusta Seyðisfjörð frá Egilsstöðum, líkt og gert væri með Eskifjörð.

Ákvörðun hafði þá þegar verið tilkynnt Austfari. Tölvupóstinum lýkur svæðisstjórinn á orðunum: „Til fróðleiks, gjörningurinn að „spara í rekstri” var fundin upp á Austurlandi“.“

Samkeppniseftirlitið segir þennan tölvupóst skýran og sýna fram á ólögmætt samráð um aðgerðirnar á Seyðisfirði. Það bætir við að því hafi verið vel tekið af stjórnanda landflutninga hjá Eimskipi. Fleiri stjórnendur hjá fyrirtækinu voru inni í samskiptunum.

Bæjarstjórnin reyndi að mótmæla


En henni var ekki jafnvel tekið alls staðar því lokunin þýddi verri þjónustu við íbúa og fyrirtæki á Seyðisfirði. Þegar ákvörðunin varð almenningi þar loks ljós sendi þáverandi bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar framkvæmdastjóra hjá Eimskip tölvupóst þar sem hann lýsti yfir vonbrigðum með ákvörðunina og óskaði frekari upplýsingar.

Fréttirnar virðast hafa borist seint því tölvupósturinn er sendur 2. september, daginn eftir að lokun afgreiðslunnar tók gildi. Í tölvupóstinum lýsir bæjarstjórinn furðu sinni á hvernig staðið sé að verkinu því engin formleg tilkynning hafi verið gefin út til bæjarbúa sem þó hafi skipt við fyrirtækin árum saman.

Í svari sínu útskýrir framkvæmdastjórinn að draga þurfi úr kostnaði en reyna að halda uppi þjónustu og það verði gert með daglegum ferðum til Seyðisfjarðar. Reyndin hafi verið sú að 95% sendinga hafi verið keyrðar beint til viðtakenda og því aðeins lítið brot farið í gegnum Austfar. Þessu samhliða verði heimsendingarþjónustan efld enn frekar.

Framkvæmdastjórinn lýkur svarpósti sínum á orðunum: „Hvað samkeppnisaðila okkar varðar þá þekkjum við ekki þeirra forsendur.“ Samkeppniseftirlitið segir hreint út að framkvæmdastjórinn hafi þarna „vísvitandi farið með rangt mál“ því Eimskip hafi, samanber tölvupóst svæðisstjórans og fleiri dæmi sem rakin eru í álitinu, haft miklu meiri upplýsingar um flutninga og fyrirætlan samkeppnisaðilans heldur en eðlilegt gat talist. Þá er framkvæmdastjórinn talinn meðal þeirra sem hvað mestan þátt áttu í að teikna upp samráðið.

Bæjarstjóri ítrekaði vonbrigði Seyðfirðinga með ákvörðunina að loknum fundi bæjarráðs 2. september 2009. Það breyttu engu.

Víðtækt ólöglegt samráð í flutningum innanlands


Samkeppniseftirlitið segir þessa ákvörðun eitt fjölmargra dæma um samráð fyrirtækjanna í flutningum innanlands. Fyrir utan lokunina á Seyðisfirði hafi Samskip og Eimskip átt í samstarfi á allt að 34 flutningaleiðum og að minnsta kosti fjórum afgreiðslustöðvum.

Austurfrétt hefur áður greint frá því hvernig félögin stóðu saman í að reyna að ýta Blue Water Shipping sem flutti vörur með Norrænu út af íslenskum flutningamarkaði. Þótt markaðshlutdeild Blue Water Shipping væri lítil töldu þau ógn af samkeppninni þar sem í boði væru lág verð frá Austfjörðum til Evrópu.

Samskip segja niðurstöðuna ranga


Samkeppniseftirlitið sektaði Samskip um 4,2 milljarða. Það er hæsta sekt Íslandssögunnar. Eimskip undirgekkst sátt árið 2021 og játaði þar hluta brota sinna. Rannsóknin tók áratug. Á meðan henni stóð féllu margir dómsúrskurðir vegna málsins. Út úr álitinu má lesa að flutningafyrirtækin hafi verið treg til að afhenda gögn eða reynt að afvegaleiða rannsóknina. Gagna var meðal annars aflað með húsleit.

Samskip hafa hafnað niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins og sagt það hrapa að röngum ályktunum. Þá hafa Samskip höfðað mál gegn Eimskipi vegna sáttarinnar. Hvað varðar lokunina á Seyðisfirði segir í andsvörum Samskipa til Samkeppniseftirlitsins að aðdragandinn hafi verið sá sá að Samskip vildu lækka þjónustugjald sitt til Austfars um 100.000 krónur. Rétt er að hafa í huga að þetta átti sér stað í efnahagshruninu 2008 þar sem vöruflutningar og önnur efnahagsumsvif drógust verulega saman.

Samskip segja Austfar ekki hafa viljað lækka gjöldin og þess vegna hafi samningunum verið sagt upp í desember 2008 og viðskiptunum lokið í mars 2009. Síðan hafi Eimskip tekið eigin ákvörðun. Á þetta felst Samkeppniseftirlitið ekki heldur segir tölvupóst svæðisstjórann skýran um samráðið. Því breyti það ekki öllu að Samskip hafi orðið fyrri til.