Skip to main content

Glæða gamla hafnarsvæðið á Stöðvarfirði lífi með varanlegri sýningu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. sep 2023 14:21Uppfært 14. sep 2023 15:04

Leyfi hefur fengist til að setja upp varanlega sýningu á þeim bátum og skipum sem gerðu út frá Stöðvarfirði á sínum tíma við grjótgarðinn á gamla hafnarsvæðinu í bænum.

Sýningin mun bera heitið Stöðfirskir bátar og skip og er hluti af byggðaþróunarverkefninu Sterkur Stöðvarfjörður. Þessi hugmynd ein margra sem bæjarbúar sjálfir hafa bryddað upp á í því skyni að styrkja bæjarbrag og auka aðdráttarafl fyrir ferðafólk.

Á sýningunni verður öllum skipaflota Stöðfirðinga frá miðbiki síðustu aldar gerð skil á sérstökum skiltum sem fest verða á stóra steina við grjótgarðinn. Hver bátur og skip fær sitt eigið skilti og gestir þannig gluggað í sögu útgerðar frá bænum á árum áður.

Með þessu vonast hlutaðeigendur til að glæða mannlífið við þennan gamla miðpunkt bæjarins sem stendur fyrir neðan Sköpunarmiðstöðina í bænum. Ekki er loku fyrir skotið, takist vel til, að stækka sýninguna þegar fram líða stundir með fleiri sögumolum um lífið í bænum með myndrænum hætti.