Glimrandi makrílveiði síðustu dægrin hjá skipum Síldarvinnslunnar
Það þarf að fara drjúga vegalengd upp á síðkastið eftir makrílnum en veiðar hafa gengið glimandri hjá skipum Síldarvinnslunnar (SVN). Svo vel að þeir eru langt komnir með kvótann.
Makrílvertíðin er oftar en ekki langt fram í septembermánuð en undanfarið hefur veiði skipa SVN gengið svo vel að þeir gætu hugsanlega klárað kvótann í þessum mánuði ef svo gengur áfram. Það er þó langt að fara á miðin enda skipin að veiðum nú í Smugunni.
Þorkell Pétursson, skipstjóri á Barða NK, segir mikið um fisk og hann tiltölulega stór og góður þó einhver áta sé vissulega kominn í hann.
„Það þarf þó að hafa verulega fyrir þessu. Stímið á miðin er langt eða um 600 sjómílur þar sem við erum að veiða núna. Þar á ofan, til dæmis síðasta daginn sem við vorum að veiðum þá þurftum við að fara 60 sjómílur á einum sólarhring í norður sem er alveg svakalegt. Ástæðan sú að ef við keyrðum inn í torfu þá þurfti umsvifalaust að snúa við til að ná sem mestu og þetta þurfti að gera aftur og aftur. Alltaf aðeins lengra í norður en örstutt til suðurs lon og don. Heljarinnar keyrsla alveg. Makríllinn er reyndar að færast aðeins austur núna og er stutt frá landhelgislínunni að Noregi.“
Til marks um hve vel gengur segir Þorkell að Beitir NK hafi til dæmis náð þúsund tonnum í holi í gær sem sé með því allra besta.
„Við erum langt komnir með kvótann og það veltur á hvort svo vel gengur næstu dagana hvort við klárum okkar hlut fyrir mánaðarmót. Það er ekki útilokað miðað við stöðuna í dag.“