Gnótt tækifæra í Fljótsdal til framtíðar
„Þessi innviðagreining sýnir að tækifærin eru næg í Fljótsdal og möguleikarnir byggja á sterkri hefð og sögu um sjálfbærni og sjálfsbjargarviðleitni. Fyrir alla þá sem vilja láta til sín taka í Fljótsdal er slíkt ómetanlegt veganesti.“
Þetta er mat sveitarstjóra Fljótsdalshrepps, Helga Gíslasonar, á nýrri ítarlegri greiningu á innviðum hreppsins sem unnin var af Ásdísi Helgu Bjarnadóttur, sem leiðir samfélagsverkefnið Fögur framtíð í Fljótsdal. Það verkefni snýst um að styrkja samfélagið í Fljótsdal með virkri þátttöku íbúa, fyrirtækja og stofnana sem tengjast dalnum.
Skemmst er frá að segja að skýrsluhöfundar komast að því að tækifærin skortir ekki í dalnum og það í hinum ýmsu mismunandi greinum. Meðal þess er aukin matvælaframleiðsla á svæðinu en fjölbreytt tækifæri þykja til staðar í nýtingu afurðu og ýmis konar aukinni vöruþróun. Þá sé stutt í aðgang að tilraunaeldhúsinu í Hallormsstað og þar einfalt fyrir íbúa að verða sér úti um nám í sjálfbærni og sköpun.
Gjöful veiðisvæði
Töluverð tækifæri eru til staðar með frekari nýtingu þeirra gjöfulu veiðisvæða sem í og við dalinn finnast en rjúpna-, gæsa- og hreindýraveiði er mikil á svæðinu. Sömuleiðis eru gjöful vötn í grennd. Allt þetta má nýta enn betur að mati skýrsluhöfunda og jafnvel byggja undir nýsköpun í tengslum við villibráð og ferðamennsku.
Auka má kornrækt
Jafnframt eru ónýtt tækifæri til frekari nýtingar á jurtum og plöntum til manneldis og eins þykir Fljótsdalur hentugur til kornræktar á borð við bygg, hafra, repju og humla. Þar felast tækifærin í svæðisbundinni ræktun með sameiginlegri vinnslu og markaðssetningu.
Mikil skógarþekking
Skógrækt og skógariðnaður er þegar tiltölulega stór atvinnuvegur á svæðinu en þar hafa nytjaskógar verið ræktaðir í yfir 50 ár. Skýrsluhöfundar segja að meira mætti gera þar og nefna hluti eins og aukna jólatrjárækt og ekki síður að nýta sameiginlega krafta og þekkingu til að auka enn frekar gæði trjánna og söluvirði þeirra. Þá séu sóknarfæri framundan í sölu kolefniseininga með skógrækt og ekki síður að tengja skógræktina við ferðaþjónustu og eða útivist. Margvísleg tækifæri finnist einnig í frekari vinnslu íslensks viðar til iðnaðarframleiðslu.
Auka má afþreyingarmöguleika ferðafólks
Ferðaþjónusta getur gert gott betur í Fljótsdal að mati höfunda enda mikil nálægð við Vatnajökulsþjóðgarð og Eyjabakkasvæðið en á þessum svæðum er náttúran einstök á landsvísu. Með nýju þjónustuhúsi við Hengifoss mætti dreifa ferðamönnum víðar um svæðið en nú er gert með ábendingum og upplýsingum um frekari þjónustu í grenndinni. Enginn skortur sé á tækifærum í heilsársferðamennsku hvort sem um er að ræða vatnasport, göngu- eða fjallaferðir, fuglaskoðun og margt annað sem henti þessu svæði vel.
Mynd úr Fljótsdal. Þar er fólki að fjölga hægt en bítandi en töluvert af sóknarfærum á svæðinu þegar fram líða stundir. Mynd GG