Góð makrílveiði í gær

Makrílveiðin miðja vegu milli Íslands og Færeyja, þar sem íslensku skipin hafa verið við veiðar undanfarna viku, glæddist í gær. Fiskurinn sem veiðist er stór en í honum mikil áta.

Aðalsteinn Jónsson kom í morgun til Eskifjarðar með um 1100 tonn. Skip Eskju og Brims eiga í veiðisamstarfi sem þýðir að skip útgerðanna hjálpast að við að fylla eitt þeirra sem siglir svo til hafnar.

„Af þeim 1100 tonnum sem Aðalsteinn var með fengust 1000 í gær. Þá voru fjögur skip að veiða saman og þá fylltist fljótt. Mest fengust þarna 300 tonn í holi,“ segir Baldur M. Einarsson, útgerðarstjóri Eskju.

Fyrir helgi kom Jón Kjartansson inn til Eskifjarðar með álíka magn en Baldur segir aflann vera orðinn betri núna. „Þetta er miklu betri fiskur. Áður blandaðist dálítið af síld við aflann. Þetta er stór fiskur, 530-40 grömm. Það er samt mikil áta í honum, sem er eini ókosturinn.“

Íslensku skipin hafa veitt nær allan afla sinn til þessa innan íslensku lögsögunnar. Það skiptir máli því makríllinn er deilistofn sem ekki hafa náðst samningar um milli ríkjanna í Norður-Atlantshafi. Að fiskurinn veiðist í íslensku lögsögunni á því á að styrkja stöðu Íslendinga í mögulegum samningum.

Skip Eskju og Brims reyndu fyrst fyrir sér í Smugunni en færðu sig fljótt inn í landhelgina eftir að Beitir NK veiddi þar og kom með fyrsta makrílfarminn að landi.

Vinnsla Eskju hefur síðan klukkan átta í morgun verið í fullum gangi við að vinna aflann úr Aðalsteini sem er að mestu heilfrystur.

Jón Kjartansson kom inn skömmu á eftir Aðalsteini til viðgerðar. Skipið verður stopp á meðan beðið er eftir varahlutum en vonast er til að þeir komi fljótlega.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.