Góð reynsla fyrstu dagana í skutlhóp Egilsstaðaflugvallar

Ein og hálf vika er nú liðin síðan að hópurinn Skutl til og frá Egilsstaðaflugvelli tók til starfa í kjölfar mikillar óánægju íbúa með há bílastæðisgjöld við töluvert frumstæða þjónustu við völlinn. Strax fyrsta daginn fékk flugfarþegi skutl og síðan hefur allt gengið vel.

Þegar Austurfrétt skýrði fyrst frá stofnun þessa hóps á Facebook fyrir tilstuðlan Sveins Snorra Sveinssonar á Egilsstöðum voru meðlimir hópsins um þrjú hundruð talsins. Nú tólf dögum síðar hefur fjölgað um helming og það rúmlega en alls eru þar nú skráðir 636 meðlimir sem allir fallast á að annaðhvort skutla eða sækja fólk á völlinn ef færi gefst á gegn sama greiða síðar meir.

„Allt hefur gengið vel og traustið haldið því staðið hefur verið við það sem sagt var,“ segir Sveinn við Austurfrétt. „Það skal reyndar viðurkennt að það hefur ekki verið mikil virkni svona fyrstu dagana en vonandi bætist þar úr þegar fram líða stundir. Það eina sem hefur verið aðeins miður frá mínum bæjardyrum séð er að það hefur komið ósk um skutl frá einstaklingum sem búsettir eru æði fjarri Egilsstöðum og enginn í hópnum staðsettur þar nálægt. Þannig að það var ekki hægt að aðstoða það fólk en ekki væri leiðinlegt ef fleiri sýna þessu áhuga að fjölga stöðunum og breikka þannig hringinn.“

Sjálfur vill Sveinn benda meðlimum á að vænlegra til árangurs sé að beinlínis auglýsa með fyrirvara hvort einhver eigi erindi á Egilsstaði og geti skutlað eða sótt á völlinn í leiðinni fremur en að fólk sé að óska fars. Líkurnar séu sterkar að fólk austanlands eigi erindi á Egilsstaði og geti tekið flugfarþega með í stað þess að fólk óski skutls sérstaklega.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.