Skip to main content

Góð síldarvertíð á lokametrunum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. des 2023 16:28Uppfært 07. des 2023 16:34

Góð síldarvertíð er senn að baki en síðustu farmarnir eru á leið í land. Lítið hefur verið vart við sýkingu sem fyrst kom fram í íslenska síldarstofninum fyrir um 15 árum og virðist stofninn á uppleið.


Samkvæmt tölum frá Fiskistofu hefur verið landað um 170.000 tonnum af annars vegar íslenskri síld og hins vegar norsk-íslenskri síld hérlendis. Þar af eru um 80.300 tonn af íslensku síldinni en þar eru 12.000 tonn skráð óveidd af úthlutuðum kvóta. Af norsk-íslensku síldinni hafa veiðst tæp 90.400 tonn og er sá kvóti búinn.

Þessi skráning segir ekki alla söguna því enn er verið að veiða eða landa úr íslenska stofninum. Börkur kom til Norðfjarðar í gær með um 1.500 tonn. Hoffellið kom með 650 tonn til Fáskrúðsfjarðar í vikunni. Þá er enn von á Hákoni EA til Neskaupstaðar.

„Norsk-íslenska síldin var hér skammt úti fyrir Austfjörðum en íslenska síldin hefur verið fyrir suðvestan land,“ segir Grétar Örn Sigfinnsson, útgerðarstjóri Síldarvinnslunnar. Mest af síldinni hefur komið á land þar, um 44.000 tonn.

Grétar Örn segir vertíðina hafa gengið vel. „Síldin tók við af makrílnum og skipin okkar Börkur, Beitir og Barði hafa veitt norsk-íslenska síld, íslenska síld og kolmunna í bland. Megnið af kolmunnanum Kolmunninn sem við tókum í haust var allur suðaustur af landinu,“ bætir hann við. Verið er að landa úr Barða á Seyðisfirði og Beitir á leið inn fjörðinn.

Ástandið betra á íslensku síldinni


Alls hafa verið veidd um 200.000 tonn af síld innan íslensku lögsögunnar frá því nýtt fiskveiðiár gekk í garð þann 1. september en Færeyingar hafa veitt þar um 30.000 tonn af norsk-íslenskri síld.

Grétar segir síldina líta vel út í ár en henni hefur allri verið landað til manneldis. „Hún er búin að vera mjög góð í allt haust og úrvalshráefni síðustu ár. Það er alltaf eitthvað sem flokkast undan og fer í mjöl og lýsi en megnið hefur verið unnið til manneldis.“

Íslenski síldarstofninn virðist í góðu ástandi. Sýking kom upp í honum fyrir um 15 árum sem hafði áhrif en sú óværa virðist nú nær alveg horfin. Afraksturinn er stærsta vertíð íslenskrar síldar síðan 2014 þegar veiddust 93.000 tonn. Eftir það minnkaði veiðin verulega og var til samanburðar 30.000 tonn árið 2020. Í heildina er vertíðin svipuð og allra síðustu ár vegna minni veiði á norsk-íslenskri síld. Af henni komu um 110.000 tonn á land hérlendis í fyrra.

Skip Síldarvinnslunnar eru nú flest að ljúka veiðum fyrir áramót. Vangaveltur eru uppi um loðnuleit, hvort einhver skip fari af stað nú á aðventunni eða hvort beðið verði alfarið með hana þar til eftir áramót. Ekki fannst næg loðna í haustleiðangri Hafrannsóknastofnunar til að gefa út byrjunarkvóta þótt litlu hafi munað. Vilhelm Þorsteinsson kom til heimahafnar á Akureyri eftir hádegi dag en hann sigldi frá Seyðisfirði í fyrrakvöld. Á leiðinni mun hann hafa skimað eftir loðnu.

Börkur við löndun í dag. Mynd: Síldarvinnslan/Smári Geirsson