Góðar gjafir berast Sundabúð úr hinum ýmsu áttum
Fyrr í vikunni fékk hjúkrunarheimilið Sundabúð á Vopnafirði veglega húsgagnagjöf frá Kiwanisklúbbnum Öskju en þar um að ræða stórt stofuborð og nýja stóla fyrir sólstofu heimilisins. Hjúkrunarforstjórinn getur vart ímyndað sér stöðuna innandyra ef ekki væri svona mikill velvilji í samfélaginu.
Hjúkrunarheimilið lengi barist við fjárskort í rekstrinum en Emma Tryggvadóttir, hjúkrunarforstjóri, segir aðspurð í enga sjóði að leita til kaupa á innanstokksmunum af neinu tagi.
„Þess vegna er svo frábært að finna þennan mikla stuðning hér í samfélaginu okkar og ekki aðeins hefur Kiwanisklúbburinn verið að færa okkur gjafir reglulega heldur og eru aðrir aðilar og samtök eins og Kvenfélagið Lindin, Hollvinafélag Sundabúðar og svo nytjamarkaðurinn Hirðfíflin sem koma okkur reglulega til hjálpar. Svona hefur þetta alltaf verið og ég get eiginlega vart ímyndað mér stöðuna hér inni ef slíkrar góðvildar nyti ekki við.“
Gjöfin frá Öskju nýtist afar vel í sólstofu heimilisfólks sem er helsti samkomustaðurinn á heimilinu en þar kemur fólk saman til að njóta birtunnar, spila og spjalla sín á milli. Gjöfin samanstendur af stóru, útdraganlegu stofuborði og átta nýjum stólum.
Ný og huggulegri sólstofa með nýja borðinu og stólum í stíl. Á myndinni má sjá Ingólf Arason, formann fjáröflunarnefndar Öskju auk hjúkrunarforstjórans Emmu Tryggvadóttur. Mynd aðsend.