Gömlu sundlaugarnar standa enn

Þær fimm sundlaugar sem byggðar voru á Austfjörðum fyrir árið 1950 standa allar enn þótt þær séu mismikið notaðar og breyttar.

Fornleifastofnun hefur frá árinu 2021 undanförnu unnið að skráningu sundlauga sem byggðar voru á árunum 1900-1950 á Íslandi. Samkvæmt yfirliti í skýrslunni eru 68% lauganna horfnar, óvíst um þær eða aðeins litlar leifar eftir. Alls er vitað um 93 sundlaugarbyggingar.

Austfirsku laugarnar fimm standa þó enn. Mögulega kann það að hafa áhrif að þær eru allar í yngri kantinum,byggðar a árunum 1943-1949. Ræðst það af því að heitt vatn var ekki á Austfjörðum en upp úr 1940 var komin reynsla á tækni til að hita upp vatn með góðu móti.

Sundlaug Eiðaskóla fyrst í röðinni


Elst er sundlaug Eiðaskóla vígð árið 1943. Hún er teiknuð af Guðjóni Samúelssyni og Einari Erlendssyni árið 1938. Það tafði bygginguna að ekki var hitaveita á staðnum og var Eiðaskóli því lengi eini héraðsskólinn án laugar. Hún hefur ekki verið í notkun undanfarin ár.

Næst í röðinni er Stefánslaug í Neskaupstað sem byggð var árið 1944. Hluti upphaflegu laugarinnar og laugarhússins er enn í Neskaupstað og í fullri notkun þótt þau hafi verið endurnýjuð í gegnum tíðina. Laugin er kennd við Stefán Þorleifsson, hvatamann að byggingu hennar og fastagest í áratugi.

Arkitekt hennar var Bárður Ísleifsson á skrifstofu Húsasmíðameistara ríkisins en Bárður hannaði fjölda sundlaugarhúsa við laugar landsins. Húsin voru gjarnan aflöng með þverálmum við báða enda sem þannig mynduðu skjól við annan enda laugarinnar. Sundlaugarhúsið í Neskaupstað virðist hafa verið með þeim fyrstu í þessum stíl.

Bárður teiknaði Sundlaug Fáskrúðsfjarðar í samvinnu við Einar Erlendsson. Hún var síðan byggð árið 1947. Laugin er yfirbyggð en samt aldrei nefnd sundhöll, eins og algengt var. Skýrsluhöfundar telja það vera vegna þess að hún hafi verið frekar lítil, minnst sundhallanna og látlaus meðan eiginlegar sundhallir hafi verið stærri og íburðarmeiri í hönnun. Laugin er enn í notkun.

Sundhöll Seyðisfjarðar glæsilegt mannvirki


Það á til dæmis við Sundhöll Seyðisfjarðar sem lýst er í skýrslunni sem „glæsilegu húsi, sannkallaðri höll.“ Hún er byggð árið 1948 og teiknuð af Bárði og Guðjóni, trúlega innblásin eins og fleiri byggingar Guðjóns af finnska arkitektinum Eliel Saarinen, í nýklassískum stíl með áberandi stigahúsi sem nái upp fyrir þak hennar eins og um turn sé að ræða. Skýrsluhöfundar eru afar gagnrýnir á járnklæðningu hallarinnar i seinni tíð og segja hana hafa "látið á sjá" við það. Sundhöllin er enn í notkun.

Selárdalslaug er yngst lauganna, byggð árið 1949 og hönnuð af Bárði. Hún sker sig úr hinum austfirsku laugunum því í Selárdal er heitt vatn enda voru áður sundlaugar þar. Hún hefur löngum verið rómuð fyrir fagurt umhverfi og er einnig lofuð í skýrslunni. Reglulega hefur komið til tals að byggja laug á Vopnafirði en af því hefur aldrei orðið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.