Skip to main content

Götulokanir á Egilsstöðum yfir Unglingalandsmótið

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. júl 2025 15:54Uppfært 29. júl 2025 16:01

Íbúar á Egilsstöðum mun hugsanlega þurfa að fara aðrar leiðir um bæinn en venjulega meðan Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands stendur yfir um helgina. Tvær götulokanir hafa verið staðfestar auk þess ferðir strætó breytast.

Ekki er um stórar lokanir að ræða með tilliti til þess að búist er við kringum tíu þúsund gestum. Annars vegar þar um að ræða spottann milli Skattstofunnar og afleggjarans að Húsasmiðjunni og verslun Vasks en það til að auðvelda og tryggja umferð gangandi fólks enda er tjaldsvæðið á Egilsstöðum báðum megin þess veghluta.

Hin lokunin nær yfir kaflann milli Laufskóga og Dynskóga beint fyrir framan Vilhjálmsvöllinn en ekki aðeins er stærsti hluti mótsins sem fer fram á Vilhjálmsvelli heldur er og viðamikil dagskrá í Tjarnargarðinum, Egilsstaðaskóla og auðvitað í íþróttamannvirkjum Egilsstaða. Með þeirri lokun er óhætt fyrir gangandi vegfarendur að labba til eða frá áhyggjulaust.

Þá mun áætlun strætó taka breytingum strax á föstudaginn kemur sem aftur er ætlað að auðvelda gestum að komast til og frá án þess að nota eigin bifreið til enda bílastæði af skornum skammti við marga mótsstaðina. Strætó mun ganga frá klukkan 7.30 alla mótsdagana og fram til 23 á föstudagskvöldinu, 20.15 á laugardagskvöld og til 18.15 á sunnudaginn. Strætisvagninn opinn heimafólk ekkert síður en gestum og gangandi.

Áhyggjulaust verður fyrir gesti Unglingalandsmótsins að flakka milli Vilhjálmsvallar og annarra keppnisstaða án þess að hafa áhyggjur af bílaumferð. Mynd Unnar Erlingsson